149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:04]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki annað en þakkað fyrrverandi samflokkmanni mínum fyrir umhyggjuna gagnvart þeim flokki sem ég er varaformaður í. (BergÓ: Hún er alltaf til staðar.) Farið var yfir bakland flokksins og hvernig ég tala t.d. um þetta mál á fundum. Hv. þingmaður gefur sér að ég vilji ekki kannast við málið og kenni eingöngu fyrrverandi Framsóknarmönnum, núverandi Miðflokksmönnum, um það. Ég geri það alls ekki og hvet hv. þingmann til að fara að mæta á fundi um þriðja orkupakkann hjá Sjálfstæðisflokknum til að heyra hvernig ég tala um málið.

Það er ekki nóg með að ég vilji gangast við króganum, ég er samþykk þessu máli. Mér finnst þetta efnislega gott mál. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Því fylgja breytingar sem bæta hag neytenda, (Gripið fram í: Já.) auka gagnsæi og upplýsingagjöf fyrirtækja sem eru upp til hópa í einokunarstöðu. Það eykur eftirlitsheimildir Orkustofnunar.

Mér finnst þetta fínt mál og gengst við því. Ég vil klára það, ekki af því að maður sé kominn í einhverja klemmu með ferli sem hefur átt sér stað undanfarin tíu ár, sem er samt hluti af samhengi málsins. Það er hluti af stóru myndinni. Það er ástæðan fyrir því að við erum með þessa vinnu, Evrópureglugerðir sem koma hingað inn í landsrétt. Það er ákveðið ferli á því. Samningar skulu standa. Það er líka hluti af því.

Það er ekki þar með sagt að ég hafi farið í pólitík til að innleiða þriðja orkupakkann. En ég hef vandað mig í þessu máli. Ég hef kynnt mér það og ég er samþykk því. Samningar skulu standa. Þetta er hluti af alþjóðasamstarfi.

Ég fagna þessari umræðu. Þetta kallar á dýpri umræðu um orkumál. Ég fagna því. Þetta kallar á skarpar línur um það hvar menn standa þegar kemur að alþjóðasamstarfi. Ég veit hvar ég stend þar. Ég tala mjög skýrt gagnvart mínu baklandi í mínum flokki, sem hv. þingmaður er því miður ekki lengur í, þegar kemur að þeim þáttum og ég stend og fell með því.