149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Ég vil hrósa hæstv. iðnaðarráðherra fyrir að gangast með þessum hætti við málinu og segja alveg ísköld að hún sé fylgjandi því og ánægð með það. Ég held að hv. formaður utanríkismálanefndar, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sé á sama stað hvað það varðar. Það er gott að þetta liggi fyrir.

Á sama tíma verð ég þó sem fyrrverandi Sjálfstæðismaður að skamma þær dálítið því að þeim hefur tekist alveg ævintýralega illa til, að því er virðist, að útskýra málið fyrir baklandi síns eigin flokks. Það virðist blasa við af öllum fundum sem fréttir berast af.

Það er auðvitað hlutur sem ég ætti ekki hafa áhyggjur af núna en ég hef alltaf smááhyggjur af mínum gamla flokki.