149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Maður er svo vanur því að röðin sé svona þegar ráðherrar eru í umræðum að maður gleymdi því að það væri eitt svar eftir. Ég vil bara segja að pólitíska forystan í þessu máli hefur sannarlega legið hjá Sjálfstæðisflokknum. Þetta hefur einhvern veginn allt brotið á þeim ágæta flokki. Það var auðvitað við því að búast að stuðningur við þann ágæta hóp sem þar er í þingflokki kæmi frá samfylkingarflokkunum fjórum sem deila stjórnarandstöðunni með okkur. Þar hefur enginn bilað, alla vega fáir, helst hafa verið uppi efasemdir hjá Pírötum.

En mér þótti það verklag sem ætlunin var að hafa á innleiðingu þriðja orkupakkans og samþykkt hans ekki benda til þess að menn væru mjög sannfærðir um góða stöðu sína hvað þessa forystu varðar þegar átti að reyna að þvinga málið í gegnum síðari umr. á næturfundi á vormánuðum. Það eitt og sér orsakar að við blasir að þingflokki Sjálfstæðismanna líður ekki vel með þetta mál. Það lagaðist staðan þar innan dyra þegar svokallaðir fyrirvarar voru kynntir til sögunnar, hvernig sem þeir halda. Við þekkjum þá umræðu. Og ég hef ekki veitt því athygli að neinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins, svo ég skammi aðeins mína gömlu félaga, sé búinn að koma í ræðu í dag og útskýra hvort ekkert hafi dregið úr tiltrú þeirra á hinum meintu fyrirvörum og hvort sá viðsnúningur sem varð í vor á stuðningi hluta þingflokk Sjálfstæðisflokksins sé enn til staðar og á sömu forsendum.