149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Við ræðum þennan orkupakka áfram og ég verð að segja að fátt hefur komið á óvart í umræðunni í dag, ekki einu sinni hin arfaslaka ræða hæstv. utanríkisráðherra. Ef ég hefði tekið veðmáli um pulsu og kók um hvernig hún yrði hefði ég örugglega unnið einn ef ekki tvo skammta því að hún var nákvæmlega eins og við mátti búast: Hann reyndi að finna einhverja aðra til að bera ábyrgð á málinu, svaraði ekki spurningum sem þó hafa verið bornar upp, var algjörlega úti í skurði eins og reyndar í flestum ræðum sínum þegar kemur að þessum málum og öðrum.

En aðeins til að svara örstutt hæstv. ráðherra er það auðvitað þannig að þegar sá er hér stendur var ráðherra var unnið að málinu. Auðvitað. Það var leitað eftir undanþágum frá þessu pakkadóti öllu saman — og auðvitað fengust þær ekki. Það er af því að Evrópusambandið lagði mikla áherslu á að við myndum innleiða þetta.

Auðvitað var málið í meðförum Alþingis þennan tíma. Hæstv. ráðherra, hvar sem þú ert, Guðlaugur Þór Þórðarson, málið var í meðförum Alþingis. Það var þannig, hæstv. ráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson, hvar sem þú ert, að það var á vakt Sjálfstæðismanna með formennsku í utanríkismálanefnd sem málið var klárað. Það er rangt hjá þér, hæstv. ráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson, að sá er hér stendur hafi klárað málið. Það var gert í júní 2016. Þá kemur minnisblað frá ráðuneytinu þar sem er teiknuð inn ákveðin niðurstaða, ákveðin leið, tillaga til Alþingis um hvernig eigi að fara með málið. Því miður byggði sú lausn á sömu tillögu og varð ofan á þegar við vorum að tala um fjármálakerfið eða hvað það hét nú. Satt best að segja held ég að það hafi verið mikil mistök að fara þá leið. Síðan var vitanlega sá ágæti lögmaður sem skrifaði þá lausn fenginn til að gefa álit á þeirri lausn, hvort hún hentaði í þessu líka. Hver var niðurstaðan í því áliti? Vitanlega sú að hans leið sem varð ofan á þegar kom að fjármálamarkaðnum hentaði líka fyrir þetta.

En málið snýst bara ekkert um þetta, það snýst um að þegar kemur að endastöð í þessu máli, þegar kemur að því að taka ákvörðun, 2016 og 2017, þegar Alþingi er að ljúka umfjöllun um málið, er ástæða til að segja: Heyrðu, við fengum ekki undanþáguna sem við vildum. Við erum hrædd við þetta mál, við ætlum að stoppa það, við ætlum að hugsa það betur, við ætlum að fara aðra leið, til sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Menn gerðu það hins vegar ekki og þess vegna erum við hér í dag. Ég fullyrði, virðulegur forseti, að það hefði á þeim tíma ekkert gengið að fara aftur til Evrópusambandsins. Það kann hins vegar að vera að það gangi í dag vegna þeirrar miklu andstöðu sem er við málið í þingsal og úti um allt land, meðal þjóðarinnar, meðal stuðningsmanna stjórnarflokkanna. Það er mikil andstaða.

Það að þessi hæstv. ráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, skuli koma hingað og flytja aðra eins bullræðu og hann gerði er ráðherranum til minnkunar. Það er nú eins og það er.

Mig langar að nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa barist fyrir því að þetta mál yrði skoðað betur, fólkinu í Orkunni okkar, stuðningsmönnum stjórnarflokkanna sem hafa reynt að tala um fyrir sínu fólki, Miðflokksfólki úti um allt land og öllum þeim sem hafa varað við þessum orkupakka, ekki bara á Íslandi heldur líka erlendis.

Virðulegi forseti. Okkar bíður orkupakki fjögur og við erum aðeins búin að sjá hann, búin að kíkja í pakkann, eins og einhverjir vildu gera hér um árið. Við erum búin að kíkja í orkupakka fjögur og við eigum strax að byrja að velta fyrir sér hvað þar er í gangi.

Ég held, virðulegur forseti, að það sé líka allt í lagi skipta um skoðun. Það er allt í lagi ef einhverjir stjórnarþingmenn voru efins á sínum tíma og eru fylgjandi núna að skipta um skoðun. Það er allt í lagi. Ég verð að segja líka, virðulegi forseti, að hafi ég sem ráðherra gert einhver mistök í þessu máli, hafi ég ekki staðið mig, hefði ég átt að taka málið úr þinginu, segja við þingið: Hættið þessu. Við þurfum að gera betur. Við þurfum að leita annarra leiða, berja hausnum við steininn og krefjast undanþága sem var ljóst að við fengjum ekki — hafi ég gert þau mistök verð ég bara að lifa með því. En þær upplýsingar sem við höfum í dag eru þess eðlis (Forseti hringir.) að ég er sannfærður um að við þurfum að taka þetta mál til betri skoðunar og fá tíma til þess frá félögum okkar í EES-samstarfinu.