149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyrði á ræðu hv. þingmanns að hann vildi fara að kíkja á næstu orkulöggjöf Evrópusambandsins. Það hefur hv. utanríkismálanefnd heldur betur gert. Hún fékk gríðarlega góða kynningu á allri þeirri orkulöggjöf sem er að koma frá Evrópusambandinu sem og minnisblað um efnisatriðin og alla þá hagsmunagæslu sem er á leiðinni og er í vinnu hjá okkar stjórnvöldum. Mér finnst því skrýtið að vera alltaf að ásaka ríkisstjórnina eða aðra þingmenn sem hér starfa um að vera ekki vakandi yfir því sem er að koma.

Mál næstu orkulöggjafar er á sama stað og þriðji orkupakkinn var fyrir tíu árum. Hv. þingmaður hefur heldur betur skipt um skoðun á þeim tíma. Það kom ekki fram í ræðunni en það kom vissulega fram að fólk megi skipta um skoðun og það er gott og gilt en ég tel að hv. þingmaður hafi einmitt staðið sig vel þegar hann var að passa hagsmuni Íslands á þessum tíma. Hann stóð sig vel. Hann fékk undanþágur frá ýmsu og tvíhliða stoðin var styrkt í málinu. Málið sem stendur hér í dag er gott þannig að hv. þingmaður stóð sig vel við að gæta hagsmuna Íslands í málinu og þess vegna er það hér í dag í þessum búningi. Ég styð málið og það þýðir ekki að við þurfum að velta því fyrir okkur að styðja það ekki út af einhverri orkulöggjöf sem er að koma. Nei, við munum vinna hana eins vel og mögulegt er. Hún er á forgangslista ríkisstjórnarinnar. Það að segja að við séum ekki vakandi yfir henni er rangt. Sú löggjöf (Forseti hringir.) er mun viðurhlutameiri en þriðji orkupakkinn. Við fengum góða kynningu á henni og hv. þingmaður situr í nefndinni þannig að hann á að hafa aðgengi að þessum skjölum og fundum.