149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og ég þakka líka þingmanni fyrir mjög góða verkstjórn í utanríkismálanefnd. Þingmaður er mjög góður nefndarformaður og verður örugglega mjög erfitt að feta í hennar spor ef að því kemur einhvern tímann sem það gerir vitanlega einhvern tímann.

Ég ætla ekki að eyða öllum tímanum í að mæra hv. formann utanríkismálanefndar en spurt var hvort sá er hér stendur hafi reynt að fá undanþágur frá öllum pakkanum í heild sinni. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki alveg hvernig þetta var en hins vegar var óskað eftir undanþágum frá því að innleiða í fyrsta lagi ACER-stofnunina og allt það dót sem þar fylgir og líka að áfram yrði tekið tillit til Íslands eins og verið hefur, ef ég man þetta rétt. En það finnst mér ekki skipta neinu máli í dag. Það sem við vitum í dag, eða það sem ég veit, nú ætla ég bara að tala fyrir mína hönd, er að ég veit miklu meira um þetta mál núna en ég vissi þegar ég var í ráðuneytinu. Ég skammast mín ekkert fyrir að viðurkenna það. Hér hefur fjöldinn allur af lögfræðingum, sérfræðingum, bæði á Íslandi og erlendis, komið fram með hliðarsjónarmið sem ég man ekki eftir að hafa séð áður. Bara það eitt segir mér að það hefði verið full ástæða til þess að afgreiða málið með öðrum hætti frá Alþingi á sínum tíma. Hefði maður getað lagt eitthvert lóð á vogarskálarnar? Mögulega. Ég skorast ekkert undan því. En ég skammast mín heldur ekkert fyrir það að hafa skipt um skoðun á þessu máli. Það er galið að innleiða þennan orkupakka eins og hann lítur út í dag með þeirri óvissu sem um hann ríkir. Það er ekki búið að eyða allri óvissu um þetta mál, því miður. Og það er meiri óvissa fram undan varðandi orkupakka fjögur. Ég skil ekki af hverju ríkisstjórnarflokkarnir hafa ekki gert meira af því að skoða hvaðan það kemur. Það er ekkert í þessu minnisblaði í utanríkisráðuneytinu (Forseti hringir.) annað en eitthvert blaður.