149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:37]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Við erum komin aftur saman í dag til að ræða afnám stjórnskipulegra fyrirvara vegna innleiðingargerða sem nefndar hafa verið þriðji orkupakkinn. Það er — til upprifjunar, þótt það hafi vissulega komið fram fyrr í dag — ágætt og jafnvel mikilvægt að hafa í huga að fjallað var um innleiðingu þessara gerða á fjölmörgum fundum fastanefnda á Alþingi, atvinnuveganefndar, utanríkismálanefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í nokkur ár áður en utanríkisráðherra annars vegar og atvinnu-, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra hins vegar kynntu þingsályktunartillögu og frumvarp til laga til innleiðingar gerðanna síðastliðið vor. Þrátt fyrir mikla og vandaða umfjöllun þessara nefnda Alþingis og vinnu sérfræðinga í stjórnsýslunni í aðdraganda að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem t.d. voru tryggðar undanþágur fyrir Ísland vegna sérstöðu landsins sem lítið og einangrað raforkukerfi ásamt algjörum undanþágum frá þeim hluta orkupakkans sem varðar málefni jarðgass taldi Miðflokkurinn engu að síður ástæðu til að efna til málþófs á Alþingi, málþófs sem stóð í um 130 klukkustundir og nú erum við hingað komin aftur saman til að ræða innleiðingu þessara gerða og ljúka málinu. Við erum hér enn og aftur af því að stjórnarflokkarnir þrír heyktust á því að klára málið í vor eins og þeim hefði verið í lófa lagið að gera með yfirgnæfandi stuðningi á Alþingi. Ríkisstjórnin kaus frekar að gefa Miðflokknum dagskrárvaldið.

Svo má líka nefna að mögulega erum við hér vegna hripleks minnis þeirra sem að málinu hafa komið á fyrri stigum. Staðreyndin er sú að rætt var um þriðja orkupakkann og samið um viðeigandi undanþágur Íslands vegna innleiðingarinnar þegar hv. þingmenn, formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og varaformaður, Gunnar Bragi Sveinsson, sátu í embættum forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands. Þetta hefur margoft komið fram en það verður ekki minna mikilvægt að halda því til haga.

Hv. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur hins vegar borið því við að það hafi bara verið svo margt í gangi þegar hann var forsætisráðherra og þess vegna hafi hann ekki tekið nægilega vel eftir þriðja orkupakkanum. Það er eðlilegt að spyrja hvað geti mögulega hafi verið meira áríðandi að mati forsætisráðherrans fyrrverandi en þetta mál sem hann telur núna hina mestu ógn við fullveldi Íslands, hvorki meira né minna.

Enn skrýtnari verður samtíningurinn í kýrhausnum þegar það er rifjað upp að á þeim sama annatíma í lífi hv. formanns Miðflokksins gaf hann sér tíma til að ræða við þáverandi forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, um hvort lagning sæstrengs milli Íslands og Bretlands væri ekki hið besta mál. Það samtal ætti reyndar að hafa sannfært formanninn um að möguleg lagning sæstrengs og orkupakkinn eru tvö aðskilin mál. Innleiðing þriðja orkupakkans leggur engar skyldur á herðar Íslandi að samþykkja hugsanlegan sæstreng þótt annað hefði mátt ætla af málflutningi Miðflokksmanna og fylgifiska þeirra undanfarið.

Að því sögðu langar mig að beina sjónum frekar að því sem harðir andstæðingar þriðja orkupakkans, þar með talið þingmenn Miðflokksins, hafa einkum tínt til á vegferð sinni til þessa.

Í fyrsta lagi, frú forseti, er það frasinn um óþekkt og ófyrirséð valdframsal til erlendra aðila. Nú er það svo, eins og óteljandi oft hefur komið fram, að þriðji orkupakkinn kallar hvorki á óþekkt né ófyrirséð valdframsal til erlendra aðila. Innleiðing gerðanna kallar einfaldlega á það að sjálfstæði Orkustofnunar skuli tryggt. Ef einhvern tímann í framtíðinni kemur til þess að raforkukerfi Íslands verði tengt öðru landi með sæstreng þá er það Orkustofnunar að mæla fyrir um skilmála tengingarinnar í samstarfi við orkustofnun viðkomandi EES-ríkis. Og ef þessir tveir sjálfstæðu eftirlitsaðilar koma sér ekki saman um málið þá er það Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, sem tekur af skarið. ESA vinnur fyrir okkur líkt og önnur aðildarríki.

Og hér má minna á að við höfum frá því að EES-samningurinn var samþykktur falið ESA eftirlit með framkvæmd samningsins og líka alls konar eftirlit með íslenskum stjórnvöldum, t.d. hefur ESA eftirlit með því að samkeppnisumhverfi okkar sé í lagi og að stjórnvöld ívilni ekki tilteknum aðilum. Það held ég að flestum okkar þykir hið besta mál.

Eitt nýlegt dæmi má taka af afskiptum ESA og það tengist leigubílamarkaðnum okkar. Nú standa vonir til þess að íslensk stjórnvöld auki frelsi á þeim markaði til hagsbóta fyrir almenning í kjölfar frumkvæðisathugunar ESA á þeim aðgangshindrunum sem hér hafa viðgengist allt of lengi. Það er reyndar rétt að halda því til haga að Miðflokksmenn eru miklir aðdáandi núverandi fyrirkomulags og eru því ekki sáttir við afskipti ESA þar eða aukið valfrelsi neytenda á markaði ef marka má aðkomu þeirra að þeim málum.

Hvað varðar orkumálin hefur ESA reglulega til skoðunar raforkusamninga við stórfyrirtæki í samræmi við samkeppnisreglur EES-samningsins, enn og aftur með hagsmuni almennings í huga.

Í anda málsháttarins um að tilgangurinn helgi meðalið hafa ákveðnir aðilar, m.a. þingmenn Miðflokksins, ítrekað reynt að kasta rýrð á mikilvægi sjálfstæðra eftirlitsstofnana líkt og Orkustofnunar. Þannig hafa þeir gjarnan notað orðalagið landsreglari um Orkustofnun, líklega í tilraun til að ná fram þeim hughrifum að hér sé um einhvers konar útsendara erlends valds að ræða. Orðið landstjóri kemur upp í huga, orð sem hefur sögulega vísun í valdbeitingu útlendinga. Og þegar betur er að gáð er þetta nýyrði landsreglari hins vegar hugmyndarík þýðing á enska hugtakinu „national regulator“. Póst og fjarskiptastofnun er þannig landsreglari, líka Fjármálaeftirlitið, Umhverfisstofnun, og svo má áfram telja. Erum við komin á þann stað að Umhverfisstofnun sé með tilvist sinni ógn við fullveldi landsins?

Þessi fámenni en háværi hópur hefur líka farið mikinn í áhyggjum sínum af því að Orkustofnun fái heimildir til að sinna neytendavernd með því að geta krafið orkufyrirtæki um upplýsingar að viðlögðum sektarheimildum, óþekktar sektarheimildir kallast þetta í málflutningi þeirra. Samt er það svo að Póst- og fjarskiptastofnun hefur heimild til þess að kalla eftir upplýsingum að viðlögðum sektum sem og t.d. Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið. Almennt hygg ég að það ríki nokkuð góð sátt um að eftirlitsaðilar hafi þau tól til að framfylgja hlutverki sínu neytendum til hagsbóta.

Þingmenn Miðflokksins hafa líka viðrað blýþungar áhyggjur af dómstólum hér og þar. Það var t.d. nokkuð sérstakt að heyra þingmenn flokksins fara mikinn með yfirlýsingum um það í vor að staðan væri slæm í Noregi og að þriðji orkupakkinn og innleiðingin þar væri að fara til sérstakrar skoðunar hjá stjórnlagadómstól Noregs. Þetta var merkilegt, ekki síst í ljósi þess að það er enginn stjórnlagadómstóll í Noregi, bara hreint ekki.

Og fyrst ég nefni dómstóla er líka ágætt að fara aðeins yfir þau dómsmál sem eru Miðflokksmönnum svo hugleikin í þessari umræðu.

Í fyrsta lagi felst í tveggja stoða kerfi EES-samningsins að það er bara EFTA-dómstóllinn sem er valdbær gagnvart Íslandi. Það er bara Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, sem getur höfðað samningsbrotamál gegn Íslandi. Enginn einkaaðili sem vaknar upp einn daginn og langar að leggja sæstreng til Íslands getur höfðað mál fyrir EFTA-dómstólnum ef hann fær ekki þau svör frá íslenskum dómstólum sem hann vill.

Hvað með skaðabótamál kann einhver að spyrja? Nú er það svo að hvorki EFTA-dómstóllinn né ESB dómstóllinn koma að skaðabótamálum. Skaðabótamál vegna meintra brota gegn EES-samningsins eru og verða rekið fyrir íslenskum dómstólum. Það er íslenskra dómstóla að meta hvort viðkomandi eigi nægilega skýran og óskilyrtan rétt til réttinda og hvort önnur skilyrði skaðabótaskyldu séu fyrir hendi og um þetta hefur verið fjallað ítarlega, m.a. í dag.

Frú forseti. Hér í þessum dómsal — þetta var skemmtilegt mismæli. Hér í þessum sal [Hlátur í þingsal.] greinir okkur á um margt og við höfum mismunandi lífsskoðanir. Við tökumst á um málin, stundum með markmiðin, stundum með leiðirnar að þeim. Það er eðli stjórnmálanna. Það á að vera styrkur lýðræðisins, en þeim mun geigvænlegra er þegar sú umgjörð er misnotuð, þegar menn skrumskæla ítrekað það sem satt er og rétt til að sækja sér fyrirsagnir eða fylgismenn.

Miðflokkurinn hefur valið þetta mál, þriðja orkupakkann, til að freista þess að grafa undan EES-samstarfinu. Hér hefur verið fullyrt aftur og aftur af þingmönnum Miðflokksins að það sé einfalt, einfaldara en flest annað næstum því, að vísa þessu máli aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar eins og þar sé um eitthvert óformlegt spjall að ræða. Menn hafa talað um landsreglara í stað eftirlitsstofnunar til að búa til þau hughrif að hér sé eitthvað óeðlilegt á ferðinni, eitthvað laumuspil, og menn hafa jafnvel búið til ný dómstig í útlöndum til að sverta myndina eins og kostur er.

Öll orðræða Miðflokksins um mál sem varðar þriðja orkupakkann hefur einkennst af því að ala á ótta. Vondir útlendingar eru að ásælast eitthvað frá okkur; frá mér og frá þér. Það er viðfangsefni okkar hinna á Alþingi að sú orðræða verði ekki samþykkt, að ósannindi verði ekki hið nýja viðmið. Þessi nálgun er reyndar ekki uppfinning Miðflokksmanna heldur er hún því miður orðin þekkt hjá ákveðinni tegund stjórnmálaafla og stjórnmálafólks í löndum víða í kringum okkur. Meintur óvinur er hins vegar ekki alltaf sá sami og raunar er ímyndunarafl þeirra sem beita slíkri aðferðafræði, aðferðafræði óttastjórnar, ansi ríkt þegar kemur að því að finna meinta óvini. Ég verð að segja að Miðflokkurinn býr að ansi hreint fjörugu ímyndunarafli. Þriðji orkupakkinn er nefnilega mjög ólíklegur og eiginlega hálfasnalegur í hlutverki meints óvinar.

Þó að það megi með réttu skemmta sér yfir ýmsu í orðræðu Miðflokksins er tilgangurinn skýr og hreint ekki fyndinn. Fátt grefur nefnilega eins hraustlega undan hagsmunum Íslands og tilhæfulaus aðför að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, samningi sem er grunnur að þeim lífsgæðum sem íslensk þjóð hefur notið síðasta aldarfjórðung.

Viðreisn vill efla og styrkja evrópskt samstarf og hefur skýra sýn um að það sé íslenskri þjóð til heilla að stíga skrefið til fulls og gerast aðili að Evrópusambandinu. Þangað til það verður munum við í þágu landsmanna allra verja EES-samninginn með ráðum og dáð fyrir tilhæfulausum atlögum á borð við þá sem átt hefur sér stað í tengslum við innleiðingu þriðja orkupakkans. Þessi pakki snýst í grunninn um neytendavernd. Þessi pakki snýst í grunninn um umhverfisvernd. Þetta er gott mál.