149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Uppgangur svokallaðra popúlískra flokka veldur mörgum áhyggjum, ekki hvað síst í Evrópulöndum þessa dagana. Hér upplifum við Íslendingar þetta í formi Viðreisnar sem hvað eftir annað leyfir sér ómaklegan málflutning hér í ræðustól, ég held það sé ekki orðum aukið, og ítrekar ósannindi aftur og aftur, væntanlega í þeirri von að ef þau endurtaki það nógu oft þá fari menn að trúa því. En svo rammt kveður að þessu að þingmenn Viðreisnar eru nú farnir að fá ósannindi lánuð frá öðrum flokkum, jafnvel frá Sjálfstæðisflokknum. Hv. þingmaður fór með gömlu rullu Sjálfstæðismanna um að það hafi verið hlutverk mitt að stöðva þriðja orkupakkann, mál sem heyrði aldrei undir mig.

Hvað hefði hv. þingmaður sagt ef ég hefði á sínum tíma farið út fyrir valdsvið mitt og hrifsað málið af þinginu? Ef ég hefði yfir höfuð getað það, ég efast reyndar um að ég hefði haft vald til þess, en ef ég hefði reynt að hrifsa þriðja orkupakkann af þinginu til að koma í veg fyrir innleiðingu hans, hefði hv. þingmaður fagnaði því?

Ég ætla næst að spyrja hv. þingmann út í fullyrðingar um Eftirlitsstofnun EFTA því þar kom reyndar eitt og annað merkilegt fram í máli hv. þingmanns sem má að eiga það, svo ég hrósi nú líka aðeins, að hv. þingmaður viðurkenndi vald ACER, evrópsku eftirlitsstofnunarinnar og hún viðurkenndi líka í hverju nýtt hlutverk landsreglarans, Orkustofnunar, ætti að felast. En ég er ekki alveg viss um að hv. þingmaður hafi áttað sig á því hvert hlutverk ESA er sem milligönguaðili. Ég mun spyrja um það eftir.

En fyrst bara þessi spurning eða getgáta: Hvað hefði hv. þingmaður sagt (Forseti hringir.) ef ég hefði reynt að hrifsa mál af þinginu til að drepa það?