149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:55]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég var svo upptekin af því að hlusta og reyna að skilja túlkun hv. þingmanns á fyrra svari mínu, sem var áhugaverð, en við fáum örugglega tækifæri til að ræða það nánar vegna þess að ég gat ekki skilið hv. þingmann öðruvísi en að hann boðaði hér sterkt andóf Miðflokksins við næstu innleiðingar sem tengjast EES-samningnum. Ég hlakka verulega til vetrarins. (Gripið fram í: Ekki allar.) Nei, það verður áhugavert að sjá hvað verður valið úr. Það vekur t.d. sérstaklega athygli mína að orkupakkinn varð fyrir valinu frekar en t.d. innleiðing í persónuverndarmálum (Gripið fram í.) eða fjármálastofnanirnar. Af hverju voru þær látnar eiga sig? (SDG: Ég er líka á móti því.) Of flókið mál, lítil söluvara fyrir almenning, ekki hægt að teygja tilfinningarnar eins mikið. Hver veit? Það kemur í ljós.

En spurningin núna er: Var hv. þingmaður að hrósa mér fyrir að fara með rétt mál en jafnframt að gagnrýna? Var hann að spyrja hvort ég skildi ekki málið? Ég náði ekki almennilega spurningunni. (SDG: Hlutverk ESA.) Já, ég náði því en ég náði ekki almennilega hver spurningin var varðandi þetta. Staðreyndin er að undanþágan er sú að Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, fer með málið. Síðan liggur ACER þarna á bak við. Við þekkjum það. Þetta hefur margoft komið fram. Það er alveg hægt að mála upp þá mynd að ef einhvern tímann verður tekin hér ákvörðun um lagningu sæstrengs — ég get alveg komið út úr skápnum með það að ég er ekkert sannfærð um að um alla framtíð verði það fáránleg hugmynd að leggja hér sæstreng. Ég hef engar forsendur til að ákveða það hér og nú, enda er það svo sem ekki til umræðu. Ég er hins vegar sannfærð um það að þegar að því kemur að taka þá umræðu verður hún tekin fyrir opnum tjöldum. Mögulega er það eitt af því jákvæða sem hefur komið út úr þessu bulli öllu að menn verða meira vakandi og menn munu ræða málin. Menn láta ekki þá sem sitja í stóli forsætisráðherra hverju sinni sofa á verðinum. Menn munu ræða málin frá upphafi. Þá er tímabært að fara af alvöru í þessi mál og …(SDG: Meira vald til forsætisráðherra?) Meiri ábyrgð til forsætisráðherra og að hann sinni vinnunni sinni þannig að eftir sé tekið. (SDG: … ekki taka málið af þinginu.) Ég talaði aldrei um að taka málið af þinginu, það voru þín orð.(Forseti hringir.)

(Forseti (BHar): Forseti minnir á að hv. þingmaður sem stendur í ræðustól hverju sinni hefur orðið.)