149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Í dag ræðum við þriðja orkupakkann í þinginu enn á ný. Málið sem hófst í samráði við Alþingi árið 2010 er nú í lokaafgreiðslu þingsins. Ég ætla ekki að nýta tímann í dag til að fara yfir ítarlega vinnu síðustu ára eða störf fyrrverandi ráðherra eða þær undanþágur sem við höfum fengið í því ferli. Yfir það hefur verið farið í dag af ýmsum hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum. Málið hefur hins vegar verið á borði hv. utanríkismálanefndar frá því í apríl sl. þegar það gekk til nefndarinnar fyrir um fimm mánuðum.

Sendar voru 132 umsagnarbeiðnir. Nefndin fékk rúmlega 50 umsagnir. Fjöldi gesta kom síðan fyrir nefndina á opnum fundum svo upplýsingar um málið væru sem aðgengilegastar öllum, bæði í vor og aftur í ágúst. Fyrir nefndina komu hátt í 50 gestir í vor og margir aftur og nokkrir nýir fyrir nefndina nú í ágúst. Alls voru haldnir 12 fundir um málið sem hér um ræðir á þessu tímabili í utanríkismálanefnd og þá eru ekki meðtaldir fundir annarra nefnda á fyrri stigum þessa máls á síðustu árum. Ég þekki varla mál sem hefur fengið yfirgripsmeiri umfjöllun nefndarinnar.

Ég tel ekki þörf á að rekja ítarlega öðru sinni nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar. Það stendur, er yfirgripsmikið og gott og liggur fyrir og þar tökum við á öllum þeim spurningum sem hafa vaknað í umræðunni. Þar er yfirgripsmikil umfjöllun um komu sérfræðinga fyrir nefndina sem skiluðu álitum og greinargerðum sem liggja fyrir öllum.

Þar er líka tekist á um hvað er í þriðja orkupakkanum og hvað er ekki í honum. Það sem þvælist kannski svolítið fyrir umræðunni eru allar rangfærslurnar um hvað er ekki í orkupakkanum og því langar mig með afar einföldum hætti hér í upphafi að segja hvað það er sem felst í þriðja orkupakkanum.

Í fyrsta lagi eru í honum gerðir er varða jarðgas. Frá þeim fékk Ísland undanþágu.

Í öðru lagi er krafa um eigendaaðskilnað flutningsfyrirtækja. Frá þeim fékk Ísland líka undanþágu.

Í þriðja lagi eru ítarlegri ákvæði um sjálfstæði raforkueftirlits. Þau frumvörp iðnaðarráðherra eru til umræðu á morgun. Þar er ein lagabreyting um aukið sjálfstæði Orkustofnunar og kannski sú eina lagabreyting sem eftir er til að taka orkupakkann upp sem er til umfjöllunar hér á þessum þingdögum. Annað hefur verið gert áður, t.d. með lagabreytingum árið 2015.

Í fjórða lagi, og það er kannski það mikilvægasta sem snýr að okkur, er hnykkt á þeim sterka neytendarétti sem einkennir alla orkupakkana. Það felst m.a. í skýrum rétti neytenda til að velja sér orkusala að vild, skipta hratt og auðveldlega um orkusala sem og fá ítarlegar upplýsingar um orkunotkun og verðlagningu.

Varðandi það langar mig að segja að ég var í ræktinni í morgun — ef maður tekur sögu úr hversdagsleikanum — og hitti þar unga konu sem á mann og eitt barn sem sagði að hún hefði hlustað á mig í vor og ákveðið að skipta um orkusala. Hún vissi ekki að það væri hægt, hafði aldrei heyrt um að hægt væri að skipta. Hún sagði: Já, ég hef sparað fjölskyldunni minni nokkra þúsundkalla síðan í vor og mun halda áfram að gera það þannig að ég ætla bara að þakka þér fyrir.

Í fimmta lagi snýr þetta að tengingum milli landa. Það á ekki við hér því að þær eru ekki til staðar, eins og við höfum margoft farið yfir í þessum ræðustól, og ég held að engum skynsömum og yfirveguðum manni detti í hug að hægt verði að koma á slíkum tengingum milli Íslands og ESB gegn vilja íslenskra stjórnvalda. Það er auðvelt að skoða dæmi frá Evrópu þess efnis að það er á valdi hverrar þjóðar að ákveða hvað fer inn fyrir landhelgi hennar. Það er hægt að kíkja til Danmerkur núna sem stöðvar gasleiðslur inn fyrir sína landhelgi. Danmörk er í Evrópusambandinu og er undir öllum þriðja orkupakkanum.

Hæstv. forseti. Sem fyrr segir hefur þetta mál verið rakið ítarlega af sérfræðingum og mörgum helstu lögspekingum landsins. Ekki er hægt að segja annað en að þeir hafi svarað mismunandi álitamálum sem komið hafa upp. Nefna má Bjarna Má Magnússon, prófessor við Háskólann í Reykjavík og sérfræðing í hafrétti, Margréti Einarsdóttur, dósent í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, Skúla Magnússon, héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur og fyrrverandi skrifstofustjóra EFTA-dómstólsins, Davíð Þór Björgvinsson, varaforseta Landsréttar og fyrrverandi dómara við Mannréttindadómstól Evrópu, lögmennina Hilmar Gunnlaugsson, sérfræðing í orkurétti, Birgi Tjörva Pétursson og Ólaf Jóhann Einarsson. Allir þessir sérfræðingar eru á sama máli, að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér neina skyldu og þar af leiðandi engin réttindi varðandi lagningu sæstrengs, og höfðu ekki áhyggjur af valdframsali í málinu. Ég nefni það sérstaklega aftur, af því að andstæðingar orkupakkans hafa sérstaklega nefnt mögulegan sæstreng sem átyllu til að hafna honum, að Stefán Már Stefánsson, prófessor emeritus, og Friðrik Árni Friðriksson Hirst lögfræðingur voru þeir einu sem töldu þurfa fyrirvara og lögðu til þá leið sem er hér farin og liggur fyrir og hafa nú sagt að sá fyrirvari sem gerður er að þeirri fyrirmynd haldi og vel það.

Því má alveg spyrja á þessum tímapunkti eftir alla þessa yfirgripsmiklu umræðu um málið: Hvað stendur eftir? Lögfræðilega er það fátt. Í þessum sal eru það bara uppblásnar ræður og útúrsnúningur Miðflokksins sem kom ekki með neitt nýtt til borðsins hér í dag, ekkert nýtt. Ýmsir virðast hafa áhyggjur af því að þáverandi utanríkisráðherra hafi ekki haldið nægilega vel á málum er varðar orkupakkann á fyrstu stigum málsins en svo var ekki. Fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Ég skil þó afar vel þau veigamiklu sjónarmið að almenningur á Íslandi vilji halda vel utan um eina dýrmætustu auðlind þjóðarinnar, orkuna. Um það erum við sammála og það að Íslendingar taki sínar eigin ákvarðanir í orkumálum. Að sjálfsögðu.

Þá er alveg vert að nefna að það er ekkert í þessum orkupakka sem ógnar því sjónarmiði eða þeirri stefnu. Ekki neitt.

Virðulegi forseti. Það er einfalt að svara spurningum hv. þingmanna um af hverju ég vilji samþykkja þriðja orkupakkann. Það er mér frekar auðvelt. Það sem snýr að okkur er neytendavernd, t.d. með auknu eftirliti með einokunarstöðu á orkumarkaði, sem er jákvætt og það samrýmist afar vel stefnu Sjálfstæðisflokksins. Við erum öll sammála um mikilvægi þess að ráðstöfun orkunnar sé í höndum okkar Íslendinga, rétt eins og ráðstöfun annarra auðlinda er í höndum okkar, til að mynda í sjávarútvegi. Almenningur getur treyst því að Sjálfstæðisflokkurinn mun hér eftir sem hingað til standa vörð um íslenska hagsmuni þegar kemur að þátttöku okkar í alþjóðasamstarfi, alþjóðasamningum o.s.frv. Það höfum við gert í þessu máli og aðeins aukið hagsmunagæslu okkar á öllum stigum.

Við erum ekki að samþykkja þriðja orkupakkann eingöngu til að viðhalda EES-samstarfinu, heldur af því að við erum búin að vinna þá vinnu sem þarf til að tryggja íslenska hagsmuni í þessu máli líkt og við erum byrjuð á er varðar næstu orkulöggjöf sem við höfum þegar fengið kynningu á, en þau mál standa, eins og ég hef sagt hér fyrr í dag, á sama stað og þriðji orkupakkinn stóð fyrir tíu árum, á byrjunarpunkti, og kemur fyrir nefndina í haust. Nýja löggjöfin mun því koma til skoðunar á komandi vetri og verða ítarlega rýnd og er á forgangslista ríkisstjórnar. Þar verður auðvitað gætt að hagsmunum Íslands í ferlinu öllu.

Ef upp koma mál í framtíðinni mun Sjálfstæðisflokkurinn hvergi hika í hagsmunagæslu fyrir Ísland. Mörgum þingmönnum verður nú tíðrætt vegna þessa máls um ákveðnar áhyggjur af Sjálfstæðisflokknum sem má þakka þá umhyggju sem fólk sýnir flokknum, en hann er flokkur sem stendur fyrir frjálsum viðskiptum og auknum alþjóðaviðskiptum. Það var á þeim grunni og samkvæmt þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn á tímum Viðeyjarstjórnarinnar leiddi inngöngu okkar í EES-samstarfið. Það samstarf hefur verið afar farsælt og aukið lífsgæði hér á landi töluvert eins og allir þekkja. Fólk á mínum aldri tekur EES-samningnum sem sjálfsögðum hlut af því að það þekkir varla annað.

Á þeim aldarfjórðungi sem liðinn er síðan við gengum inn í samstarfið höfum við tekið upp ýmsar reglugerðir til að tryggja aðild okkar að hinum samevrópska markaði og svo höfum við líka sótt um fjölda undanþága, en það er ekkert í þessu máli sem kallar á sérstaka varúð umfram það sem nú hefur þegar verið unnið að.

Að lokum vil ég taka fram að nú á sér stað vinna við gerð orkustefnu til lengri tíma. Orkustefnan snertir á öllum þeim þáttum sem hefur verið í umræðu síðustu mánuði. Það er jákvætt að sú umræða hafi verið í gangi en hún á að mestu heima undir umræðu um orkustefnu, eins og þættir er varða forræði Íslands yfir nýtingu og stjórnun orkuauðlinda landsins eða sjálfsákvörðunarrétt varðandi tengingar við önnur raforkukerfi, hvernig megi stuðla að enn virkari samkeppni í raforkusölu, eflingu neytendaverndar í orkumálum, orkuöryggi, samspili orkumála og loftslagsmála og stöðu Íslands innan regluverks Evrópusambandsins.

Fulltrúar allra þingflokka eiga sæti í þessum þingflokki og það er ekkert í þriðja orkupakkanum sem ógnar þeim þáttum sem þar eru undir. Það er ábyrgðarhluti að láta sem svo sé. Sú umræða mun halda áfram og sú vinna er í fullum gangi og ég hlakka til að sjá hvað kemur út úr orkustefnu til framtíðar.

Við skulum hvar og hvenær sem er ræða um orkumál og hvernig þau eru til þess fallin að auka lífsgæði hér á landi enn frekar. Við erum sammála um að við viljum standa vörð um auðlindirnar okkar, líkt og við gerum með sjávarútveg og náttúru landsins, og svo getum við kannski rætt með hvaða hætti það er gert en það heyrir bara ekki undir þetta tiltekna mál.