149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Fyrsta spurningin varðaði lagalega fyrirvarann. Fyrirvarinn er unnin að fyrirmynd þeirra lausna sem Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst lögðu til um að ákveðin ákvæði sem varða innri raforkumarkaðinn taki ekki gildi hér á landi. Það er áréttað í þingsályktunartillögunni sem við ræðum. Síðan felst hann auðvitað í frumvörpum og þingsályktunartillögu iðnaðarráðherra sem verður rædd á morgun, m.a. um að Alþingi þurfi sérstaklega að samþykkja lagningu sæstrengs. Það hefur síðan verið áréttað enn frekar að ákveðin ákvæði er varða innri raforkumarkaðinn taki ekki gildi hér á landi, sem eðlilegt er þar sem við erum ekki tengd honum.

Flestir fræðimenn sem komu fyrir nefndina töldu fyrirvarann ekki þurfa. Hann eru þó til staðar. Hann er skýr að mati þeirra fræðimanna sem töldu þurfa fyrirvara og hefur inntak hans síðan verið staðfest, bæði af framkvæmdastjóra orkumála hjá ESB og öllum þeim EFTA-ríkjum sem sitja í sameiginlegu EES-nefndinni. Það hefur að sjálfsögðu mikla þýðingu.

Ég held og vona að þetta svari hv. þingmanni. Þetta er eins mikill lagalegur fyrirvari og hægt er að setja við málið á þessum tímapunkti. Hann er mjög skýr. Hann er í gögnum málsins sem liggja frammi, bæði sem við ræðum í dag og þeim sem við ræðum á morgun. Allir fræðimenn, bæði þeir sem flokkur hv. þingmanns vill sérstaklega vitna til en líka aðrir, hafa sagt að hann hafi verulega þýðingu. Sumir hafa gengið lengra og sagt hann hafi lagalegt gildi. Það er víst að hann er skýr og auðvelt að finna.

Varðandi seinni spurningu hv. þingmanns sýnist mér tíminn vera útrunninn og verð að fá að svara henni í öðru svari mínu.