149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:31]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Enn á ný stöndum við og ræðum þingsályktunartillögu um staðfestingu ákvörðunar EES-nefndarinnar um breytingu á IV. viðauka við EES-samninginn. Eins og margir hafa talað um í dag hefur Alþingi varla fjallað jafn mikið um neitt mál og þriðja orkupakkann. Það sem næst kemur á eftir eru umræður á þingi um aðild okkar að EES-samningnum sjálfum fyrir 25 árum síðan,

Málið um þriðja orkupakkann hefur legið hjá Alþingi í heil tíu ár með ótal nefndarfundum, sérfræðiálitum og umsögnum, frá fræðimönnum, félagasamtökum og einstaklingum. Óteljandi ræður hafa verið fluttar, sumar ágætar og skynsamlegar og sumar varpað ljósi á áhyggjur fólks, til að mynda um samkeppnisþáttinn og einkavæðingarmöguleika á orkufyrirtækjum, en því miður hafa flestar ræður sem fluttar hafa verið um þriðja orkupakkann, sér í lagi á þessu þingi, verið uppfullar af útúrsnúningi, rökvillum, óljósri framtíðarsýn og því miður fluttar í þeim einfalda pólitíska tilgangi að grafa undan trausti á alþjóðasamvinnu, alþjóðasamningum og ekki síður fullveldi okkar sem ríki sem tekur sínar eigin ákvarðanir. Allt í þeim tilgangi að þjóna stjórnmálaöflum og -skoðunum sem næra ótta fólks og boða einangrunarhyggju. Þess konar pólitík er pólitík sem misnotar tilfinningar fólks en forðast rök og skynsemi.

Herra forseti. Popúlismi eða lýðskrum er nafnið yfir þess konar tegund af stjórnmálum. Og lýðskrum er beinlínis hættulegt lýðræði og samfélagslegum þroska.

En það er líka staðreynd að orkuauðlindir okkar Íslendinga og yfirráð yfir þeim standa okkur nærri og snerta strengi í sálarlífi fólks. Umræða um orkulindir og nýtingu þeirra verða því oft tilfinningaþrungnar, enda má segja að það sé almennur vilji fólks í landinu að stíga varlega til jarðar þegar kemur að nýtingu orkuauðlinda okkar og því enn mikilvægara að fara varlega í því að auka ótta fólks, sér í lagi ef það er ástæðulaust eins og í þessu máli.

Um hvað snýst þá þriðji orkupakkinn? Afsal á fullveldi? Brot á stjórnarskrá Íslands? Að ESB sé að leggja undir sig orkuauðlindir okkar án þess að við fáum rönd við reist, eins og valdalaust ríki sem enga stjórn hefur? Að við séum að afsala okkur auðlindunum okkar?

Þriðji orkupakkinn snýst um gerðir sem varða innri markað fyrir raforku og jarðgas. Nýmælin eru krafa um eigendaaðskilnað flutningsfyrirtækja, ítarleg ákvæði um sjálfstæði raforkueftirlits og auknar kröfur um neytendavernd og upplýsingagjöf. Komið er á fót samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, ACER, sem falið er samræmingarhlutverk milli raforkueftirlitsaðila til að nýting á orku verði betri og skilvirkari, eitthvað sem mikil þörf er á á tímum loftslagsbreytinga og róttækra aðgerða í loftslags- og umhverfismálum.

Það er ekki verið að koma á fót ACER með þessari þingsályktun hér heldur var ACER komið á fót árið 2010 og hefur verið starfandi síðan árið 2011, enda eru gerðir orkupakkans, svokallaðir orkupakkar eitt og tvö, frá árinu 2009.

Og varðandi eftirlit og ACER mun það eftirlit snúast um að fylgjast með að samkeppni milli dreifingaraðila milli almennings og fyrirtækja, annarra en orkufreks iðnaðar, sé virt og sanngjörn og flutningur neytenda milli dreifingaraðila ávallt greiður, að starfsemi fyrirtækjanna sé gagnsæ og réttur neytenda ávallt hafður í fyrirrúmi. Mun eftirlitið takmarkast við innri markað á Íslandi.

Það er margt sem þriðji orkupakkinn snýst ekki um, þótt því hafi verið haldið fram í umræðunni. Hann snýst ekki um afsal á valdheimildum, snýst ekki um brot á stjórnarskrá Íslands, snýst ekki um lagningu sæstrengs og hann snýst ekki um að einkavæða orkuauðlindir fyrir útlendinga. Það eru mjög áhugaverð rök andstæðinga orkupakkans sem ég kem að síðar.

Orkupakkinn sem við ræðum um snýst ekki um afsal á fullveldi okkar. Til að mynda er það ekki svo að upptaka og innleiðing þriðja orkupakkans samræmist ekki íslenskum stjórnskipunarlögum, eins og haldið hefur verið fram margoft í þessum þingsal af þingmönnum sjálfum. Þvert á móti, og undir það taka fjölmargir fræðimenn, fullnægir framsal valdheimilda sem fælist í innleiðingu þriðja orkupakkans vel því skilyrði að vera vel skilgreint og á afmörkuðu sviði. Raunar má samkvæmt fræðimönnum á borð við Skúla Magnússon og álitsgerð hans um málið minna á að framsal valdheimilda gangi lengra í málum er varða upptöku og innleiðingar vegna Evrópska fjármálaeftirlitsins.

Undir þetta tekur líka Davíð Þór Björgvinsson í sinni álitsgerð, að valdheimildir ESA og ACER muni ganga skemur en þær valdheimildir sem ESA hefur um fjármálaeftirlit. Þær valdheimildir hafa heldur betur styrkt fjármálakerfið á Íslandi eftir skipbrot þar.

Þess vegna skulum við hætta öllu tali um afsal á valdheimildum eða brot á stjórnarskrá Íslands.

Eigum við þá að ræða um lagningu sæstrengs, sem þriðji orkupakkinn fjallar ekki um en mikið er fjallað um í þingsal?

Þriðji orkupakkinn felur ekki í sér skyldu fyrir íslenska ríkið til að leggja sæstreng. Þrátt fyrir þetta hafa andstæðingar orkupakkans óljósar og óskýrar áhyggjur af því að ef íslenska ríkið synjar einstaklingum eða lögaðilum frá Evrópska efnahagssvæðinu um að leggja sæstreng á milli Íslands og annars aðildarríkis EES, ESB muni það hafa í för með sér að samningsbrotamál verði höfðað gegn íslenska ríkinu af hálfu EFTA og ESA, auk þess sem íslenska ríkið verði dæmt skaðabótaskylt. Enginn af andstæðingum orkupakkans sem hafa haldið því fram hefur þó getað útskýrt með alvöruröksemdafærslu af hverju innleiðing á þriðja orkupakkanum þýði sjálfkrafa lagningu sæstrengs og enn síður getað útskýrt nægilega hvernig íslenska ríkið væri skaðabótaskylt ef íslenska ríkið myndi neita fyrirtækjum eða lögaðilum um lagningu sæstrengs.

Þeir andstæðingar orkupakkans sem hafa tjáð sig um þessi óljósu skaðabótaskyldu hafa átt í erfiðleikum með að benda á tiltekin ákvæði orkupakkans sem feli í sér umrædda skyldu. Nokkrir, á borð við Arnar Þór Jónsson héraðsdómara, hafa þó vísað til aðfaraorða reglugerðarinnar frá 13. júlí 2009. Því hafa Margrét Einarsdóttir, dósent í Evrópurétti við lagadeild Háskólans í Reykjavík, og Bjarni Már Magnússon, prófessor í hafrétti og þjóðarétti við lagadeild Háskólans í Reykjavík, andmælt bæði í greinum og í máli sínu fyrir hv. utanríkismálanefnd. Þau hafa bent á og rökstutt vel að aðfaraorð reglugerðarinnar hafi ekki lagagildi eins og héraðsdómarinn heldur fram. Það sé því ekki unnt að lesa út úr þeim orðum skyldu íslenska ríkisins til að heimila einstaklingum og lögaðilum að leggja sæstreng, enda er það hvorki skýrt í aðfaraorðum né í lagatexta tilskipunarinnar. — Og aftur: Aðfaraorð reglugerðarinnar hafa ekki lagagildi.

Varðandi lagningu sæstrengs vil ég minna á að næsta ESB-ríki sem hægt væri landfræðilega að leggja sæstreng til er Bretland, sem er á hraðri leið út úr ESB án nokkurs samnings þann 31. október næstkomandi. Það er því núna ákveðinn landfræðilegur ómöguleiki, og verður alla vega næstu árin, að leggja sæstreng milli ESB og Íslands. Það kann að breytast í mögulegri framtíð og kannski viljum við líka velta því fyrir okkur að kollvarpa hugsuninni um að virkja fyrir stóriðju, hætta því og nýta orkuna okkar í orkuskipti. Kannski dettur einhverjum framtíðarþingmönnum í hug að leggja til að leggja sæstreng og leggja þar með lóð á vogarskálarnar um meiri hreina orku þegar kemur að því neyðarástandi sem ríkir í loftslagsmálum.

En komum þá að fullveldinu sem mikið hefur verið rætt um í umræðu um þriðja orkupakkann. Við skulum vera skýr. Fullveldisréttur fullvalda ríkja leiðir til þess að þau ráða sjálf hvort lagður er sæstrengur inn fyrir landhelgi þeirra eða ekki. Ákvörðunin um hvort leggja megi eða leggja eigi sæstreng á milli Íslands og aðildarríkja EES mun því áfram vera á forræði Alþingis Íslendinga þó að þriðji orkupakkinn verði innleiddur í íslenskan rétt.

Þetta kemur afar skýrt fram í grein Margrétar og Bjarna Más á Vísi frá því í ágúst.

Það er því ljóst að í þriðja orkupakkanum er ekki að finna nein lagaákvæði sem leggja þá skyldu á herðar íslenska ríkinu, heimaeinstaklingum eða lögaðilum að leggja sæstreng frá Íslandi til annars aðildarríkis EES eða öfugt.

Það er líka svo, herra forseti, að stór ef ekki einn stærsti þáttur fullvalda ríkis er að gera alþjóðasamninga á borð við EES-samninginn. Hið svokallaða ytra fullveldi ríkja er bundið við rétt ríkja til að koma fram á alþjóðavettvangi og stofna til þjóðréttarskuldbindinga á borð við EES-samninginn. Frá sjónarhóli þjóðaréttarins snýst fullveldið einmitt um að taka á sig skuldbindingar er varða þátttöku í alþjóðastofnunum og gera alþjóðasamninga. Sum sé: Beitingu fullveldisins í krafti þess að ríki sem séu fullvalda hafi einmitt réttinn til að ákveða alþjóðaþátttöku og þátttöku í alþjóðasamningum.

Þess vegna er það alveg ótrúleg rökvilla þegar andstæðingar orkupakkans draga í efa stöðu okkar sem aðila að EES-samningnum, að með því séum við að afsala fullveldinu, með því að undirgangast alþjóðasamninga og vera þátttakendur í alþjóðastofnunum. Þetta þykir mér vera eitt af lykilatriðunum í þeim átökum um þriðja orkupakkann sem við höfum séð í allan vetur; að Ísland sé að afsala sér fullveldinu með auknum tengslum við alþjóðastofnanir eða ríkjabandalög. Minni athygli er vakin á því að með því að beita fullveldi sínu markvisst, bein í baki, líkt og með EES-samninginn, erum við fullvalda ríki og notum fullveldið okkar fram í fingurgóma. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Með því að virða þá alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að fær Ísland meira út úr þeim en mörg smáríki gætu verið að fá út úr fullveldi sínu í sífellt flóknari heimi þar sem landamæri og milliríkjatengsl eru stöðugt óljósari.

Við sem erum sjálf þingmenn núna hljótum að treysta þingmönnum framtíðarinnar til að taka upplýsta ákvörðun fyrir hagsmuni Íslands, fyrir íslenska náttúru og fyrir íslenskar orkuauðlindir. Það er að mínu viti varhugaverð þróun að halda öðru fram og draga úr mikilvægi okkar í alþjóðasamstarfi og sem aðila að alþjóðasamningum. Eins og einhver sagði fyrr í dag: Samningar skulu standa. Við sem fullvalda ríki erum sterkari ef við erum ábyrgur samningsaðili. En við eigum líka að gæta hagsmuna Íslands betur og á það hefur verið bent alla tíð frá því að Halldór Ásgrímsson talaði um það sem ráðherra fyrir 24 árum síðan, ári eftir að aðild Íslands að EES-samningnum var samþykkt í þessum sal.

Það skulum við gera, herra forseti, gæta hagsmuna okkar enn betur og enn skipulagðar en við höfum gert.

En hvað þá með afsal yfir auðlindum okkar sem margir vilja meina að innleiðing þriðja orkupakkans innihaldi? Í fyrsta lagi má minna á að regluverk ESB meinar að hafa áhrif á reglur aðildarríkjanna um skipan eignarréttar samkvæmt stofnsáttmála ESB og sáttmála um starfshætti ESB. Þetta er lykilatriði í umræðunni um afsal eigin auðlinda. Það getur engin stofnun úti í heimi eða bandalag skipað okkur sem fullvalda ríki að einkaaðilar eignist tilteknar náttúruauðlindir. Það er ákvörðun okkar og við getum rifjað upp nokkur ömurleg dæmi um það þegar íslensk stjórnvöld hafa selt auðlindir og orku á undirverði til erlendrar stóriðju. Heiðurinn af þeim vafasömu gjörningum eiga íslensk stjórnvöld, alein og skuldlaust, líkt og virkjun við Kárahnjúka til Alcoa ber vitni um.

Það er hægt að vera sammála því að regluverk sem hannað en fyrir aðstæður í Evrópu henti ekki alltaf fyrir íslenskar aðstæður vegna þess að almenningur á að langstærstum hluta fyrirtækin sem framleiða rafmagn og að öllu leyti fyrirtækin sem flytja raforku. Við þurfum því að leggja áherslu á að hafa öfluga hagsmunagæslu í Brussel til að það sem fer í EES-samninginn eigi við aðstæður okkar.

Það þarf líka að vekja athygli á því að orkupakkar Evrópusambandsins hafa að markmiði að ýta undir orkuskipti, sem er lykilatriði til að draga úr hamfarahlýnun á viðsjárverðum tímum í loftslagsmálum. Þar má til að mynda vísa í umsögn Samorku um breytinguna á raforkulögum þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Evrópusambandið hefur gert ýmislegt til þess að skapa hvata til að auka framboð og þá einkum á sviði sjálfbærrar raforkuframleiðslu, en einnig meiri og betri orkunýtni á öllum sviðum.

Hvatar eins og heimild til útgáfu upprunaábyrgða fyrir græna raforkuframleiðslu hafa skilað viðkomandi raforkuframleiðendum tækifærum með bættri samkeppnisstöðu gagnvart raforku framleiddri með jarðefnaeldsneyti og ekki síður ýtt undir möguleikann á tækniþróun í grænorkuframleiðslu […] Þá gerir orkulöggjöf Evrópusambandsins einnig ráð fyrir að aðildarríkin geti í landslöggjöf sinni veitt grænorkuframleiðslu ákveðinn forgang þegar kemur að tengingum við flutnings- og dreifikerfi viðkomandi landa.

Í þessu samhengi þarf einnig að minna á að orkulöggjöf Evrópusambandsins og þá sérstaklega þriðji orkupakkinn vinnur sérstaklega með þau markmið að tryggja nýjum raforkuframleiðendum jafna stöðu þegar kemur að tengingum við flutnings- og dreifikerfin. Markmiðið er að tryggja jafnræði og gegnsæi í ákvarðanatöku á grundvelli samkeppnissjónarmiða […] Tilgangurinn er fyrst og fremst að tryggja að raforkuframleiðendur sem fyrir eru á markaðnum og hafa oft haft efnahagslega og sögulega tengingu við flutningsfyrirtækin og/eða dreifiveiturnar njóti ekki beinna eða óbeinna ívilnana. Með þessu er ýtt undir að nýir framleiðendur og þá helst í grænorkuframleiðslu komist inn á markaðinn og þar með að líkurnar aukist á fullnægjandi orkuframboði.“

Þetta eru að mínu viti góð markmið og sýna að innleiðingar á tilskipunum EES-samningsins geta verið grænni og umhverfisvænni en margar ákvarðanir sem stjórnvöld hér taka sjálf.

Að því sögðu, ef áhyggjur andstæðinga orkupakkans eru enn fyrir hendi, og mér sýnist það á svip þeirra í þingsal, höfum við líka ýmisleg tæki sem þjóðþing til að tryggja enn betur opinber yfirráð yfir orkuauðlindum sem eiga að vera í eigu okkar allra og til að tryggja að arður sem hlýst af nýtingu þeirra renni til okkar allra. Þar má minna á, líkt og hæstv. forsætisráðherra minnti á í dag, að við getum sett skarpari reglur um landakaup, skýrari löggjöf um vatnsréttindi og skýrari lagaramma um nýtingu auðlinda. Að auki er verið að vinna að orkustefnu og þar eru fjölmörg tækifæri til að vera í fararbroddi á meðal þjóða í orkumálum.

Hvað þá með markaðsvæðinguna sem verið er að kynda undir með þriðja orkupakkanum? Ég spyr á móti: Erum við ekki fullvalda ríki í EES og eigum við ekki að stunda hagsmunagæslu þar og vinna þá meira gegn markaðsvæðingu á orkuauðlindum ef við teljum hana ógna hagsmunum okkar? Enn og aftur: Við erum ekki valdalaust ríki sem ekkert hefur að segja í þessu alþjóðlega samstarfi.

En lækkaði orkuverð með innleiðingu orkupakka eitt og tvö eins og markmiðið var? Á þeim 15 árum sem liðið hafa síðan við innleiddum orkupakka eitt og tvö hefur orkuframleiðslu og dreifingu verið skipt upp. Raforkuverð lækkaði, þ.e. söluhlutinn. En það er rétt að dreifingarhlutinn hefur sums staðar hækkað og það tengist nánast eingöngu áhrifum af fjármagnskostnaði Orkuveitu Reykjavíkur sem var í gríðarlegum vandræðum eftir hrun, út af stjórnunarvandræðum en ekki út af neinum orkupökkum.

Enn og aftur verðum við að skilja á milli okkar eigin heimagerðu vandamála sem hljótast af slæmum ákvörðunum sem við tökum sjálf, slæmum stjórnarháttum, slæmri framtíðarsýn, en ekki að varpa því yfir á aðra og yfir á aðild okkar að EES-samningnum.

Að lokum vil ég koma aftur inn traust á Alþingi. Það ríkir kannski ekki mikið traust á Alþingi akkúrat núna og það eru ýmsar ástæður fyrir því, sérstaklega ástæður sem upp komu síðasta vetur. En við hljótum alla vega að treysta kynslóðum framtíðarinnar sem hafa sýnt miklu framsýnni tilburði og hugsjón en margir þingmenn sem sitja á Alþingi í dag þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum, þegar kemur að því að taka upplýstar ákvarðanir fyrir hagsmuni Íslands, fyrir íslenska náttúru og fyrir orkuauðlindir okkar. Við sem hér sitjum í dag hljótum alla vega að treysta þeim framtíðarkynslóðum til að taka góðar upplýstar ákvarðanir fyrir okkur öll.