149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég kem inn í þessa umræðu með opinn huga um þau sjónarmið sem hafa komið fram á undanförnum mánuðum. Ég bjóst samt við meiru, ég bjóst við meiri nákvæmni eftir þetta hlé þar sem fólk hefði getað kynnt sér málið betur, þar sem það hefði getað tekið saman þau rök og þær fullyrðingar sem lögð hafa verið fram og útskýrt mál sitt á nákvæman hátt í staðinn fyrir að vera með þann hræðsluáróður, sem var kallaður hér áðan, um svimandi háar skaðabætur eða áframhaldandi fullyrðingar um valdframsal.

Hvers vegna ætti í rauninni að banna lagningu sæstrengs þegar allt kemur til alls? Skoðum þetta aðeins. Orkumarkaður ESB og stefna ESB gengur út á orkuöryggi til neytenda, númer eitt, tvö og þrjú. Stjórnvöldum er núna skylt að tryggja afhendingu orku til heimila og ef stjórnvöld vilja geta þau líka tryggt orku til smáfyrirtækja. Þetta tvennt, en þeim er skylt núna að tryggja orkuöryggi til íslenskra heimila. Annað markmið orkustefnu ESB er lægra verð til neytenda. Þriðja markmiðið er umhverfissjónarmið. Þetta þrennt; orkuöryggi, lægra verð til neytenda og umhverfissjónarmið. Af hverju ættum við að segja nei við þessum markmiðum? Það er engin ástæða til þess.

Það sem er áhugavert þegar maður skoðar málið af nákvæmni — mér finnst það skipta máli þegar við erum komin út í þessar umræður, sérstaklega þær að það gætu orðið himinháar milljarðaskaðabætur, að maður verði nákvæmari í kjölfarið og geti útskýrt í nákvæmlega hvaða aðstæðum það gæti orðið. Satt best að segja sé ég ekki að þær aðstæður gæti nokkurn tímann orðið til því að þá gefa menn sér þær forsendur að íslenska ríkið eða einhver myndi banna lagningu sæstrengs. Það er í alvörunni algjör óþarfi því að ef einhver vill koma hérna og borga það fullu verði að leggja sæstreng ættum við bara segja: Já, allt í lagi, gerðu það, gjörðu svo vel.

Í fyrsta lagi er það galin fjárfesting þannig að gjöri menn svo vel að gefa okkur sæstreng. Það væri frábært. Í öðru lagi hefur það rosalega mikil áhrif á þá umræðu hvernig lægra verð á orku er tryggt á þessum markaði. Ef við skiljum hvernig orkumarkaðurinn virkar klórar maður sér í hausnum og segir: Að sjálfsögðu ætti ég að vilja sæstreng, nema bara að hann er svo dýr að hann er fáránleg fjárfesting. En ef einhver annar vill borga fyrir hann er það allt í lagi. Það virkar nefnilega þannig að það er ákveðin forgangsröðun á orkunni sem kemur inn á orkumarkað. Ég var í viðræðum við aðila sem gerðu skýrsluna fyrir Orkuna okkar í gær og þar var því lýst að við dyttum inn á Nord Pool orkumarkaðinn og verðið hjá þeim myndi hraunast yfir okkur o.s.frv. Nei, það er ekki rétt, það eru 15 mismunandi orkuuppboðssvæði og verðsvæði innan Nord Pool svæðisins. Við yrðum eitt einangrað verðsvæði t.d. vegna þess hversu lítil flutningsgeta væri með sæstreng og líka út af því að við getum alveg sett skilyrði um að við viljum ekki meira hlutfall af óumhverfisvænni orku til okkar. Það hefur mjög mikil áhrif.

Það raðast sem sagt þannig að ódýrasta orkan í framleiðslu og umhverfisvænasta orkan í framleiðslu, sérstaklega þegar hreini orkupakkinn bætist við, kemur fyrst inn á orkumarkaðinn. Hún dekkar kannski helming af þeirri orkuþörf sem búist er við. Næst kemur næstódýrasta og næstumhverfisvænasta orkan o.s.frv. þangað til að allri orkuþörfinni hefur verið mætt. Verðið á orkunni sem kemur síðust inn á markaðinn er verðið sem ræður verðinu fyrir alla orkuna sem kemur inn á markaðinn. Það gerir það að verkum að þeir sem eru með ódýrustu, bestu og umhverfisvænustu orkuna fá mun hærra verð fyrir hana en ella. Það er hvati til þess að framleiða meira af slíkri orku. Sú orka sem kemst ekki inn á markaðinn af því að búið er að svara allri eftirspurninni fær ekki aðgang, hún er ekki seld. Við höfum ekkert við dýra og óumhverfisvæna orku að gera. Í tilviki Íslands er svo rosalega mikil framleiðsla af dýrari og óumhverfisvænni orku að hún kemst einfaldlega ekki að, ekki um sæstreng og ekki til íslenskra heimila, ekki séns. Og af því að við erum á séruppboðssvæði þá skiptir engu máli hversu hátt verðið er í Noregi, Þýskalandi eða annars staðar, það hefur engin áhrif á orku- og uppboðssvæðið Ísland, ekki nein.

Þá spyr maður: Af hverju ætti maður þá að vilja sæstreng? Jú, af því að sú umframorka sem við erum með hérna kæmist um sæstreng til Evrópu. Einhverjir hafa þá áhyggjur af því að þá verði allt og amma þeirra virkjað á Íslandi til að selja sem mest og hver yrðu umhverfisáhrifin af því o.s.frv. En þá erum við með umhverfissjónarmið, við erum með rammaáætlun sem við vitum öll að Alþingi hefur stjórn á og við vitum alveg hvað það er erfitt að setja niður virkjanir. Það þýðir kannski fullt af smávirkjunum eða einhverjar vindmyllur o.s.frv. en það er gjörsamlega dropi í hafið miðað við orkuþörf Evrópu. Það er miklu hagkvæmara að byggja vindmyllur nær þar sem orkunnar er þörf, sem sagt í Evrópu, en að reisa vindmyllugarða hérna og flytja orkuna eftir rosalega löngum, óhagkvæmum og gölnum raforkustreng yfir allt Atlantshafið.

Ég sé ekki möguleika á, það væri snjóbolti í helvíti, að hingað verði lagður sæstrengur en ef hann væri hérna væri það allt í lagi fyrir okkur. Það væri ekkert hættulegt. Það myndi ekki hafa nein áhrif til hækkunar á orkuverði á Íslandi, ekki nein.

Ég hlakkaði til meiri nákvæmnisumræðu. Hún er ekki orðin það enn þá. Minn opni hugur er því farinn að verða aðeins þrengri hvað þetta varðar. Ég held samt enn í vonina um að upphrópunum verði hætt og að kynningarnar verði aðeins nákvæmari. Ég verð að viðurkenna að þær eru nákvæmari frá stjórnarliðum og ráðherrum en þær voru í upphafi og mér finnst gott að það sé verið að svara þeim spurningum sem koma hérna fram. Ég sakna þess engu að síður að þeir sem bölsótast yfir þessu máli séu nákvæmir því að það er gríðarlegur skortur á nákvæmni.