149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og fleiri þakka þingmönnum fyrir þessa umræðu í dag. Að einhverju leyti var hún auðvitað endurtekið efni frá því sem við gerðum hérna í vor og ég get ekki sagt að málið hafi breyst með neinum hætti eða að nýir fletir hafi komið upp á þeim vikum sem liðnar eru frá því að við vorum að ræða þetta mál í maí og júní. En málið hefur vissulega fengið ívið meiri umræðu, verið tekið fyrir í hv. utanríkismálanefnd á tveimur fundum og atvinnuveganefnd á einum fundi og ýmis sjónarmið rædd frekar en áður hafði verið gert. Í meginatriðum stendur þó það eftir sem varð niðurstaða okkar í stjórnarflokkunum, og reyndar fleiri flokkum í þinginu, þegar málið var lagt fram í upphafi, að það væri vel um það búið og vel frá því gengið, að innleiðing þriðja orkupakkans fæli ekki í sér neinar hættur fyrir Ísland. Það væri búið að róa fyrir ákveðnar víkur varðandi álitamál um stjórnskipulega þætti og það væri ljóst að þau sjónarmið sem fram hafa komið í opinberri umræðu og fela í sér gagnrýni eða jafnvel viðvaranir vegna þriðja orkupakkans ættu ekki við rök að styðjast.

Ég nefni bara örfá atriði í því sambandi. Mörgu hefur verið haldið fram í opinberri umræðu um þennan orkupakka, að hann feli í sér framsal á orkuauðlindinni til erlendra yfirvalda. Ekkert í málsmeðferðinni eða þeirri umfjöllun sem við höfum tekið í þinginu gefur okkur tilefni til að taka undir það eða draga þær ályktanir.

Því hefur verið haldið fram að orkupakkinn leiddi á einhvern hátt óhjákvæmilega til einkavæðingar orkufyrirtækja eða orkuauðlindarinnar. Ekkert í orkupakkanum gefur okkur tilefni til að draga þá ályktun.

Mikið hefur verið rætt um hugsanlegan sæstreng og sú umræða hefur kannski verið það sem mest hefur verið áberandi í opinberri umræðu í sumar. Það liggur auðvitað ljóst fyrir að ekkert í orkupakkanum gefur okkur ástæðu til að ætla að íslenskum stjórnvöldum sé skylt að leggja slíkan sæstreng eða heimila lagningu slíks sæstrengs. Ég kem aðeins inn á umræður í því sambandi síðar í máli mínu. Helstu áhyggjuefni manna sem hafa komið fram í umræðunni hafa að mínu mati ekki fengið stuðning í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað eða þeirri málsmeðferð sem hefur átt sér stað af hálfu nefnda þingsins og ekki heldur í þeirri umfjöllun sem hefur átt sér stað af hálfu sérfræðinga sem um málið hafa fjallað.

Í umræðunni hefur enn og aftur verið vitnað til ágætra fræðimanna, Stefáns Más Stefánssonar og Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts. Einkum hafa menn gert sér mat úr neðanmálsgrein á bls. 35 í áliti þeirra sem skilað var í mars/apríl en minna verið gert með þær niðurstöður sem hafa komið fram í áliti þeirra eða menn hafa ekki gert mikið úr heildarniðurstöðu mats þessara tveggja ágætu manna sem m.a. felur í sér að innleiðingin eins og hún er sett fram og ætlunin er að fylgja eftir felur ekki í sér neinar stjórnskipulegar hættur, eins og kom fram í bréfi þeirra í framhaldi af umfjöllun í apríl sl., og að þeir geri ekki athugasemdir við það hvernig fyrirvarar sem settir eru af hálfu íslenskra stjórnvalda eru fram settir. Reynt hafði verið að gera töluvert veður út af hvoru tveggja.

Þess ber auðvitað að geta að þessir tveir ágætu menn, Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst, höfðu meiri efasemdir í upphafi en aðrir fræðimenn sem um þetta fjölluðu og hér hefur nú verið vísað í umræðunni til góðra álitsgerða bæði Skúla Magnússonar og Davíðs Þórs Björgvinssonar, hvort tveggja eru mikilvæg gögn í málinu sem lögð eru fram, og eldri álit frá síðasta ári, frá Birgi Tjörva Péturssyni lögmanni og Ólafi Jóhannesi Einarssyni lögmanni, auk þess sem fleiri hafa komið inn á síðari stigum.

Ég ætla aðeins, hæstv. forseti, áður en ég lýk máli mínu að koma nánar inn á þátt sem hefur kannski vakið mesta athygli í sumar þó að ekki sé um að ræða nýtt efnisatriði í málinu eða nýja fleti í sjálfu sér, þeir höfðu áður verið teknir til skoðunar og ræddir, sem varða þá meintu skyldu íslenskra stjórnvalda til að heimila einhverjum aðilum að leggja sæstreng hingað ef á því yrði áhugi. Mikið hefur verið gert úr ummælum ágæts héraðsdómara, Arnars Þórs Jónssonar, í því sambandi og stuttum greinum frá nokkrum lögmönnum sem hafa reifað áhyggjur af því tagi, áhyggjur af því að innleiðing orkupakkans myndi á einhvern hátt opna á það að erlendir aðilar, hugsanlega fyrirtæki eða aðrir slíkir aðilar, gætu einhvern veginn gert þá kröfu á hendur íslenskra stjórnvalda að þeim yrði heimilað að leggja hingað sæstreng og hvað myndi gerast ef ekki yrði orðið við því af hálfu íslenskra stjórnvalda. Það er kristaltært í málinu eins og það er lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar að það er gert ráð fyrir því að engin ákvörðun um sæstreng verið tekin nema með samþykki Alþingis. Það er rétt að hafa það í huga. En menn hafa vefengt að það væri eitthvert hald í því að Alþingi ætti að taka þessa ákvörðun og hafa haldið því fram eða varað við málinu á þeim forsendum að þetta yrði heimilt. Auðvitað hefur verið komið inn á það í þessari umræðu áður en mér finnst rétt að ítreka að þessi kenning, sem ég vil orða svo, er að mínu mati byggð á afar veikum lögfræðilegum grunni. Það má segja að þeir sem hafa haldið því fram velji að mínu mati langsóttustu leiðina til að skýra það sem hér er á ferðinni og eiginlega furða ég mig á því hvað menn hafa gengið langt í að halda því fram miðað við það hvað það byggir á veikum grunni. Fyrst er það að segja um þetta atriði, og byggi ég það ekki einvörðungu á eigin hyggjuviti þegar ég held því fram heldur líka á áliti ýmissa annarra fræðimanna sem hafa tjáð sig um þetta tiltekna efni og nefni ég þá aftur þá Skúla Magnússon og Davíð Þór Björgvinsson, bæti við Bjarna Má Magnússyni, prófessor í Háskólanum í Reykjavík, og Margréti Einarsdóttur sem er hjá Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík svo dæmi sé tekið, að sú niðurstaða byggir á þeim hæpna grunni að út úr þriðja orkupakkanum megi með einhverjum hætti lesa skyldu á hendur íslenskum stjórnvöldum til að heimila lagningu sæstrengs. Ég held að allir sem hafa kynnt sér málið séu sammála um að í efnisgreinum þriðja orkupakkans er ekki um neina slíka skyldu að ræða. Menn hafa hins vegar hengt sig á almenn inngangsorð, markmiðsyfirlýsingu um að greiða fyrir viðskiptum með raforku og þess háttar þar sem reyndar er ekkert vikið neitt sérstaklega að strengjum eða slíku. Þeir menn sem ég nefndi í upphafi, Arnar Þór Jónsson og nokkrir lögmenn, hafa haldið því fram að það væri á einhvern hátt hægt að leiða þá reglu af þeim almennu orðum að Ísland gæti ekki staðið í veginum fyrir lagningu sæstrengs. Þetta tel ég afar langsótt vegna þess að hér er um almenna yfirlýsingu að ræða sem víkur ekki sérstaklega að tengingu af því tagi. Í gerðunum sjálfum eru engar reglur því til stuðnings og ef við metum hvernig markmiðslýsingar eru venjulega skilgreindar eru þær til þess að skýra einhverjar efnisreglur en fela ekki endilega og sjaldnast í sér efnisreglur í sjálfu sér. Ef þær ættu að fela í sér einhverjar efnisreglur í sjálfu sér þyrftu þær að vera miklu skýrari en þær markmiðslýsingar sem þarna er að finna í þriðja orkupakkanum.

Þess er líka að geta að það er ekki (Forseti hringir.) nýmæli að markmiðsyfirlýsingar af slíku tagi séu í orkupökkum og frá 2003 hafa verið sambærileg ákvæði um tengingar eins og er í þriðja orkupakkanum. Þó að það sé formað á annan hátt er það engu að síður markmiðsyfirlýsing af sama tagi og engum hefur dottið í hug að í því fælist einhver efnisregla um það að okkur bæri skylda til þess að heimila hingað sæstreng.

Hæstv. forseti: Þetta vildi ég segja. Tíma mínum er lokið en vonandi fæ ég möguleika á að taka þennan þátt frekar fyrir í umræðum á morgun (Forseti hringir.) en þakka annars hv. þingmönnum fyrir þátttöku í þessari umræðu.