149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[10:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum og lögum um Orkustofnun frá meiri hluta atvinnuveganefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín fjölda gesta. Nær 30 gestir hafa komið og við fengum umsagnir frá 19 aðilum. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, sem rekja má til innleiðingar þriðju raforkutilskipunarinnar. Breytingarnar lúta fyrst og fremst að því að efla raforkueftirlit Orkustofnunar með því að skýra nánar hlutverk og sjálfstæði stofnunarinnar þar sem hún sinnir eftirliti með aðilum á raforkumarkaði.

Fyrir nefndinni komu fram ýmis sjónarmið um stjórnskipuleg álitamál tengd innleiðingu þriðja orkupakka ESB. Þau heyra ekki efnislega undir nefndina og hafa fengið umfjöllun fyrir utanríkismálanefnd. Verður því ekki fjallað um þau atriði hér.

Fram kom almennur stuðningur við að efla sjálfstæði Orkustofnunar og veita henni úrræði til að styðja við eftirlitshlutverk hennar. Með frumvarpinu er lagt til að sá hluti starfsemi Orkustofnunar sem lýtur að raforkueftirliti verði sjálfstæður gagnvart ráðherra. Með því gæti ráðherra ekki gefið Orkustofnun almenn eða sérstök fyrirmæli um framkvæmd eftirlitsins. Ráðherra færi eftir sem áður með almennt eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum Orkustofnunar sem tilheyra raforkueftirliti.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að breytingarnar sem lagðar eru til tryggðu ekki nægjanlega það sjálfstæði sem þriðja raforkutilskipunin gerir kröfu um. Nefndin telur að með því að færa raforkueftirlit í sjálfstæða einingu sem er undanskilin forræði ráðherra séu þær kröfur sem tilskipunin gerir uppfylltar.

Með 6. gr. frumvarpsins eru lagðar til hækkanir á eftirlitsgjöldum. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að um umtalsverða hækkun væri að ræða. Nefndin telur að horfa verði til þess að undanfarin ár hefur verið tap af rekstri raforkueftirlits Orkustofnunar og með þriðju raforkutilskipuninni er gert ráð fyrir auknum verkefnum. Má sem dæmi nefna nýjar skyldur á sviði neytendaverndar og eftirlits með smásölu- og heildsölumarkaði auk þátttöku í ACER sem bent hefur verið á að geti eflt stofnunina, aukið skilvirkni í eftirliti, styrkt þekkingu og auðveldað stofnuninni að fylgjast með þróun raforkumarkaðarins.

Fram komu ábendingar um að ákvæði frumvarpsins þar sem lagt er til að Orkustofnun fái heimild til álagningar stjórnvaldssekta gæti valdið erfiðleikum í framkvæmd þar sem orðalag þess væri opið og víðtækt. Meiri hlutinn telur ákvæðið nógu afmarkað. Þær greinar laganna sem taldar eru upp fela í sér alvarlegri brot, svo sem að fá ekki leyfi fyrir flutningsvirkjum og virkjunum, blanda saman sérleyfisstarfsemi og annarri starfsemi og fara ekki eftir ákvæðum sem gilda um gjaldskrár og tekjumörk. Þá muni stofnunin geta lagt stjórnvaldssektir á aðila sem sinna ekki kröfum stofnunarinnar um úrbætur eða brjóta ítrekað gegn ákvæðum raforkulaga. Orkustofnun er bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar við ákvörðun um álagningu stjórnvaldssekta og ber því að gæta tiltekinna reglna við slíka ákvörðun, svo sem um meðalhóf. Meiri hlutinn telur eðlilegt að í ljósi neytendaverndar séu gerðar ríkar kröfur til aðila á raforkumarkaði.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Við 4. gr.

a. Í stað orðanna „stjórnvaldssekt á aðila sem brýtur“ í 1. málslið 1. mgr. b-liðar komi: stjórnvaldssektir á aðila sem brjóta.

b. Í stað orðanna „10 hundraðshlutum“ í 1. málslið 2. mgr. b-liðar komi: 10%.

2. Í stað orðanna „koma til framkvæmda“ í 2. málslið 9. gr. komi: öðlast þó gildi.

Undir þetta ritar meiri hluti atvinnuveganefndar og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk þessu. Aðrir sem skrifa undir eru hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Birgir Ármannsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Njáll Trausti Friðbertsson.

Virðulegi forseti. Ég hef hér reifað nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar vegna breytinga á raforkulögum sem snýr að Orkustofnun. Málið um innleiðingu þriðja orkupakkans hefur verið rætt og er engu við það að bæta. Eftir að hafa farið yfir málið í heild sinni virðast engin stórtíðindi birtast með innleiðingu þriðja orkupakkans. Þau birtust með innleiðingu fyrsta og annars pakkans. Með þriðju raforkutilskipuninni er einkum leitast við að taka á eftirfarandi atriðum: Hert er á kröfum um aðskilnað samkeppnis- og sérleyfisþátta, raforkueftirlit er eflt, samstarf raforkueftirlits aukið og neytendavernd aukin. Það má því segja að breytingarnar birtist í þessu frumvarpi, aukin neytendavernd.

Þegar annar orkupakkinn var innleiddur var gerð sú krafa að raforkueftirlitið væri óháð hagsmunum raforkufyrirtækja og með þriðju tilskipuninni er gert ráð fyrir að einungis eitt stjórnvald fari með raforkueftirlit. Það skal einnig vera lagalega aðgreint og óháð öllum opinberum aðilum eða einkaaðilum að því er varðar starfsemi. Aðildarríkin skulu ábyrgjast sjálfstæði eftirlitsvaldsins og þannig tryggja óhlutdrægni.

Ég gríp hér niður í umsögn Hilmars Gunnlaugssonar, lögfræðings í orkurétti, sem var einn af þeim sem sendu nefndinni umsögn um málið. Hann segir, með leyfi forseta:

„Náið samstarf getur samt viðgengist, t.d. við samkeppniseftirlitið. — Þessi krafa þriðja orkupakkans um að bæta við kröfu um sjálfstæði raforkueftirlitsins frá opinberu valdi (pólitík) er eðlileg, sérstaklega á Íslandi, þar sem stærstur hluti starfandi raforkufyrirtækja (a.m.k. mælt í starfsemi) er í opinberri eigu. Í þessu felst ekki að verið sé að stofna „landsreglara“ sem lúti boðvaldi frá Evrópu.“

Það samstarf sem við eigum við Evrópulöndin í gegnum EES gefur okkur tækifæri til að bæta það sem gott er og laga það sem er ábótavant. Samstarf og samvinna Evrópuþjóða í raforkumálum nær allt til byrjunar sjötta áratugarins og fleiri ríki hafa verið að bætast í hópinn. Þau markmið sem unnið hefur verið að snúa að raforkuöryggi, framboði raforku, neytendavernd, markaðsmálum, orkunýtingu, sjálfbærri og grænni orkuframleiðslu, baráttu gegn orkufátækt o.s.frv. Innleiðing sameiginlegrar orkulöggjafar hér á landi ætti fyrst og fremst að fela í sér tækifæri en ekki ógnanir.

Virðulegi forseti. Ég sem neytandi á orkumarkaði get fagnað bættri neytendavernd og bættu aðgengi að öruggri orku, bæði fyrir heimili og fyrirtækjastarfsemi. Það eru íslenskar aðstæður og íslensk raforkulög og reglur sem við þurfum að einbeita okkur að.