149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[10:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir kynninguna. Í þessari umræðu hefur ofboðslega margt verið sagt um hvað þessi þriðji orkupakki eigi að fela í sér. Við það að lesa frumvarpið, hlýða á hv. þingmann og lesa nefndarálitið sem hv. þingmaður fór yfir sé ég ekki þá ógurlegu hluti sem var spáð, kannski ekki endilega hér í þessum þingsal heldur mikið til úti í samfélaginu líka. Fyrir einhverjum mánuðum var sagan sú að hingað ætti að koma einhver stofnun á vegum ESB sem ætti að fá að ráða öllu o.s.frv. Þegar maður les frumvarpið lítur það ekkert öðruvísi út en frumvarp sem hæstv. ráðherra gæti lagt fram að eigin frumkvæði, alveg án tillits til allra tilskipana Evrópusambandsins. Maður finnur ekkert í þessu frumvarpi, svo ég fái séð, sem er á einhvern hátt öðruvísi en í venjulegu frumvarpi nema það vill svo til að það er í samræmi við tilskipun sem við ákveðum væntanlega á mánudaginn að samþykkja.

Í ljósi þessa langar mig að spyrja hv. þingmann hvort eitthvað hafi komið fram við meðferð málsins sem bendi til þess að fleiri frumvörp séu á leiðinni eða eitthvað fleira sem löggjafinn eigi eftir að gera til að innleiða þriðja orkupakkann í samræmi við þingsályktunartillöguna sem við ræddum hér í gær, með öðrum orðum hvort þetta sé allt og sumt, hvort þetta sé heila klabbið sem við höfum verið að ræða í sambandi við lagalega innleiðingu á þessum pakka. Eru einhverjar upplýsingar um að seinna meir komi fleiri frumvörp til að klára ferlið eða er málið klárað með þessu frumvarpi og því næsta sem er hér til umræðu á eftir?