149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[10:59]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég vil láta þess getið, vegna ummæla sem féllu hér, að ég tel mér frjálst að vitna til þeirra fræðimanna sem um þetta mál hafa fjallað, ég hef gert það og mun halda því áfram. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að ég mun ekki óska eftir heimild frá einum eða neinum til að vitna í þau rit og þá fræðimenn sem ég tel skipta máli við meðferð þessa máls.

Það sem hér er meðfram öðru lögð áhersla á er mikil hækkun á núverandi gjaldtöku. Hún er 45% og ég leyfi mér ósköp einfaldlega að benda á þá tölu. Hér er mjög mikil hækkun og hún hefur í það minnsta ekki verið fyllilega rökstudd. Það væri kannski nær að hv. þingmaður, sem er mikill og eindreginn stuðningsmaður þessa máls, rökstyddi það með vísan til efnislegra þátta.