149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti hv. þingmanns er fjallað um það sem er kallað lagalega bindandi ákvarðanir ACER í 37. gr. tilskipunar 72/2009 og þar er vitnað í og sagt að það sé meðal skyldna landsbundinna eftirlitsaðila í aðildarríkjunum að fara að, og framkvæma, allar viðeigandi lagalega bindandi ákvarðanir ACER eða ESA og framkvæmdastjórnarinnar.

Strax á eftir er síðan sagt að þessar lagalega bindandi ákvarðanir varði 7., 8. og 9. gr. reglugerðar nr. 713/2009, sem varðar einmitt sæstreng, sem gera ráð fyrir því að það séu tengingar á milli landa.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvaða ákvarðanir nákvæmlega eru það sem ESA eða ACER myndu vilja að Orkustofnun tæki í sambandi við 7., 8. og 9. gr. reglugerðar nr. 713/2009 án sæstrengs á Íslandi? Hvað er það sem ESA eða ACER gæti hugsanlega viljað að Orkustofnun tæki ákvörðun um í sambandi við það ef enginn (Forseti hringir.) sæstrengur er til staðar?