149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:05]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrist hv. þingmaður vera að svara einhverri annarri spurningu en þeirri sem ég spurði. Ég var ekki að spyrja um það sem kemur fram seinna í álitinu um samband ESA og ACER heldur um það hvernig ACER eða ESA myndu vilja stjórna eða segja Orkustofnun fyrir verkum í sambandi við 7., 8. og 9. gr. reglugerðar nr. 713/2009 á meðan hér er enginn sæstrengur. Þessar greinar varða einungis þær aðstæður þar sem sæstrengur er hérna. Fyrirvararnir sem ég veit að hafa enga þýðingu fyrir ESA, og koma þeirri stofnun ekkert við enda ræður íslensk stjórnarskrá á Íslandi, gera það alveg skýrt að við erum ekki að taka það upp í þessi lög eins og sést á frumvarpinu sjálfu. Það er ekki verið að afhenda eitthvert vald til ACER og ESA sem samræmist þeim ótta sem birtist í þessu nefndaráliti.

Núna er enginn sæstrengur á Íslandi. Segjum sem svo að ACER vilji fara í stríð við Ísland vegna þess að stofnunin er bara í vondu skapi og ákveður að sparka í Ísland af því bara. Á hvaða grunni myndi hún gera það? Hvað er það sem Ísland er að gera eða ekki að gera sem ACER myndi vilja að Ísland gerði eða gerði ekki meðan enginn sæstrengur er á Íslandi? (Forseti hringir.) Hvað kemur þetta málinu við? Með öðrum orðum: Hvað með það?