149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:06]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki eins fær í loftfimleikum og hv. þingmaður, að vera að tala um að við eigum von á einhverju stríði eða ógnunum frá ACER. Ég er þess ekki umkominn að segja hvað þessi stofnun myndi eða myndi ekki taka sér fyrir hendur gagnvart okkur eða einhverjum öðrum í framtíðinni.

Það sem málið snýst um er hvaða valdheimildir eru þarna og hvaða aðstaða er uppi milli okkar, ESA og þeirra. Því sem er uppi í þessu máli er mjög ítarlega lýst og því er varpað upp í álitsgerð þeirra félaga, sem ég ætla að varast að nefna til að ýfa ekki allt of mikið suma hérna, að menn umgangist tveggja stoða kerfið með hæfilegri virðingu, það eru mín orð, ekki þeirra, að þarna sé (Forseti hringir.) a.m.k. ekki mjög nákvæmlega farið eftir því.