149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:09]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég fagna því að hann er a.m.k. nær því að vera á málefnalegum nótum en hann sýndi sig vera hérna í gær. Það ber að þakka og virða.

Hv. þingmaður ræðir um hvaða tillögur Miðflokkurinn hefur í málinu. Ég myndi halda að hv. þingmaður ætti að vera farinn að gera sér grein fyrir því að sú tillaga sem við höfum uppi í málinu er hin sama og aðaltillaga lögfræðilegra ráðunauta sem ríkisstjórnin sjálf kvaddi til starfa, þ.e. að við biðjumst undan því að innleiða reglugerðir 713 og 714 sem hvort eð er eiga ekki við hérna vegna þess að við erum ótengd við Evrópu. Ég vek athygli á athyglisverðri ræðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hér í gær þegar hann lýsti þeirri skoðun að (Forseti hringir.) það yrðu engar hamfarir eða annað slíkt, eins og menn hafa sagt, varðandi EES-samstarfið þó að við færum þessa leið.