149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:11]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Eftir situr, herra forseti, spurning mín: Hvernig ætti að hátta þessu eftirliti? Er hv. þingmanni ekkert annt um samkeppni á raforkumarkaði? Þurfum við ekki að hafa skilvirkt og gott eftirlit með samkeppni á raforkumarkaði sem er gríðarlegt hagsmunamál fyrir heimilin í landinu? Og hvað er athugavert við þetta fyrirkomulag sem hér er viðhaft varðandi samstarf stofnana okkar við alþjóðastofnanir sem er nákvæmlega sama fyrirkomulagið og við höfum svo víða annars staðar innan EES-samningsins, innan hins sameiginlega markaðar? Hvernig ættum við að leysa úr því með öðrum hætti en nákvæmlega í því tveggja stoða kerfi sem við styðjumst við innan EES-svæðisins á þessum sameiginlega markaði eins og svo mörgum öðrum?

Það er kjarnaspurningin.

Orkumál eru partur af EES-samningnum og hafa verið frá upphafi. Er hv. þingmaður að leggja það til að við tökum EES-samninginn upp með þessum hætti? Við erum ekki að tala um (Forseti hringir.) smávægilegar undanþágur. Það er þá verið að tala um að við undanþiggjum orkumálin algjörlega frá EES-samningnum ef ég skil hv. þingmann rétt.