149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:12]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til að svara þessu. Svarið er mjög einfalt. Orkupakkinn, sá þriðji, samanstendur af átta gerðum eftir því sem næst verður komist. Þar af lúta fjórar að jarðgasi. Við erum undanþegin þeim samkvæmt ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar af því að jarðgas á ekki við á Íslandi. Hinar gerðirnar lúta að samstarfi sem á við þegar fyrir liggur raforkutenging á milli landa. Slík raforkutenging er ekki fyrir hendi hér og þess vegna væri eðlilegast og réttast að gera eins og þeir leggja til og gera að sinni megintillögu, þeir félagar, ég ætla að leyfa mér að nefna það þó það ýfi suma, þeir félagar Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson, og þeir staðfestu á fundi utanríkismálanefndar (Forseti hringir.) 19. ágúst sl. að þeirra aðaltillaga í málinu væri að fara með málið fyrir sameiginlegu nefndina og leita þar eftir undanþágu.