149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:13]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þm. Ólafur Ísleifsson erum samstiga þegar kemur að því að við viljum ekki framselja aukið vald til erlendra stofnana, jafnvel þó að vafinn sé mjög lítill og flestir segi að það verði ekki, en meðan það er vafi vil ég láta stjórnarskrána njóta hans. Við erum samstiga hvað það varðar.

Þetta er valdframsal frá stofnunum ríkisins hérna út á við en mig langar að vita hvort við hv. þm. Ólafur Ísleifsson séum samstiga í öðru, hvort hann sé sammála því að við þurfum að auka valdframsalið, vilja þjóðarinnar, að hún fái valdið frá okkur stjórnmálamönnunum til sín. Mig grunar að hv. þingmaður sé sammála því að þjóðin eigi að fá að greiða atkvæði í þessu máli. Þjóðin greiddi líka atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 um að fá nýja stjórnarskrá. Er hann hlynntur því eða er þetta valkvætt? Er hann hlynntur því að þjóðin fái sína nýju stjórnarskrá eins og hún ákvað 2012 eða er þetta valkvætt? Það skiptir máli.

Nú er stjórnarskrárvinna sem Katrín Jakobsdóttir er farin af stað með og hv. þingmaður eða flokkur hans er aðili að. Ég ætla að spyrja hann (Forseti hringir.) um ákvæðin þar en byrja á nýju stjórnarskránni sem þjóðin ákvað 2012 að hún vildi fá: Er hann hlynntur því að þjóðin fái að ráða í því máli?