149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:15]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir að velta upp athyglisverðri hlið á þessu máli. Um þjóðaratkvæðagreiðsluna sem hann vísar til má segja eitt og annað, m.a. um þátttöku í henni og annað af því tagi. Hún snerist meðfram öðru og einkum um mjög róttæka breytingu í okkar stjórnskipulegu efnum, þ.e. að kasta fyrir róða lýðveldisstjórnarskránni frá 1944 sem var samþykkt hérna með nánast öllum atkvæðum í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma. Hv. þingmaður spyr mig um mína afstöðu. Mín afstaða er sú að það sem ég myndi vilja kalla seigfljótandi breytingar kunni góðri lukku að stýra þegar kemur að breytingum á stjórnarskrá. Ég legg mikla áherslu á að stjórnarskrá er stjórnarskrá okkar allra og að ákvarðanir um breytingar á stjórnarskrá séu teknar eftir miklar og vandaðar umræður (Forseti hringir.) og með breiðri samstöðu.