149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú mun þriðji orkupakkinn klárast og nú hefur formaður Miðflokksins skrifað undir það skriflega samkomulag að þetta sé ræðutíminn og þar af leiðandi búinn að afsala sér valdi þingflokksins til að stunda málþóf í þessu máli. Þessi mál verða því kláruð.

Svo kemur fjórði orkupakkinn o.s.frv. og við höldum áfram inn í framtíðina. Þá er þetta aftur spurning um hvort þetta sé valkvætt þannig að hv. þm. Ólafur Ísleifsson, ef ég skil hann rétt, á ekki að virða að fullu þjóðarviljann eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. Þetta á að vera seigfljótandi og taka aftur til meðferðar. Nú er það til meðferðar hjá Katrínu Jakobsdóttur, hæstv. forsætisráðherra, í stjórnarskrárnefnd hennar þar sem fulltrúi Miðflokksins situr, hv. þm. Sigmundur Davíð og stundum hv. þm. Bergþór Ólason. Þar er talað um þjóðareign á náttúruauðlindum. Þá verjum við okkur í stjórnarskrá fyrir því að missa yfirráðaréttinn yfir þeim, eins og menn eru að tala um að sé í þriðja orkupakkanum þó að mér sýnist það ekki. Þar er umhverfis- og náttúruvernd þannig að við verndum okkur fyrir því að þurfa að virkja meira en við viljum af því að það er stjórnarskrárvarið, af því að sumir segja að við verðum (Forseti hringir.) þvinguð til að virkja eða slíkt. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru oft að frumkvæði kjósendanna. Kjósendur taka til sín valdið, eins og Miðflokksmenn virðast vilja í þessu máli, en þá væri það ekki lengur valkvætt. (Forseti hringir.) Þá væri það þjóðin sem réði í öllum málum.

Er þetta þá ekki eitthvað sem við þurfum að klára? Þetta er bráðmikilvægt til þess að klára á þessu kjörtímabili. Er þingmaðurinn hlynntur þeirri seigfljótandi leið að stjórnarskrárbreytingum í þessum málum sem stöðva þá áhættu sem menn eru að tala um í þriðja orkupakkanum?