149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli yfir nefndaráliti frá meiri hluta atvinnuveganefndar um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Nefndin hefur fjallað um málið og í þessu máli fengum við 28 gesti fyrir nefndina og 12 umsagnir.

Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að gerð verði breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Fyrir nefndinni var getið um stjórnskipuleg álitamál tengd innleiðingu þriðja orkupakka ESB. Þau heyra ekki efnislega undir nefndina og hafa fengið umfjöllun fyrir utanríkismálanefnd. Verður því ekki fjallað um þau atriði hér.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið með og á móti lagningu sæstrengs. Meiri hlutinn telur rétt að taka fram að með þingsályktunartillögu þessari er einungis verið að árétta að ákvörðunarvald um slíka framkvæmd liggur hjá Alþingi. Auk þess munu fjölmargir aðrir aðilar þurfa að koma að undirbúningi slíkrar ákvörðunar, jafnt opinberir sem einkaaðilar. Við það verða skoðaðir þættir eins og áhrif á umhverfi, samfélag o.fl. Fjölda leyfa innlendra stofnana þarf fyrir slíkri framkvæmd og þyrfti að fara mjög ítarlega í gegnum þá þætti á vettvangi Alþingis.

Meiri hlutinn telur að í ljósi mögulegs umfangs slíks verkefnis og þeirra miklu áhrifa sem ákvörðun þar um getur haft á mikilvæga almannahagsmuni sé eðlilegt og nauðsynlegt að Alþingi veiti samþykki fyrir því að í slíkt verkefni skuli ráðist. Meiri hlutinn áréttar að áður en leitað verður eftir samþykki Alþingis skal liggja fyrir ítarleg og heildstæð kostnaðar- og ábatagreining þar sem lagt er mat á umhverfisleg, samfélagsleg og efnahagsleg áhrif tengingar með sæstreng og þeirra framkvæmda innan lands sem henni tengjast.

Haldið hefur verið fram að ákvörðunarvald um lagningu sæstrengs kunni að færast frá íslenskum stjórnvöldum og gildi þingsályktunartillögunnar dregið í efa. Meiri hlutinn fellst ekki á þau sjónarmið. Að mati meiri hlutans er orðalag þingsályktunartillögunnar skýrt og tekur af öll tvímæli þar að lútandi. Ákvörðunarvald um lagningu sæstrengs mun ávallt og einvörðungu vera í höndum íslenska ríkisins. Auk þess fer ríkið með óskoruð yfirráð yfir náttúruauðlindum landsins. Þá fylgir reglugerð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði sem fylgiskjal með áliti þessu.

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Við tillögugrein: a. Í stað orðanna „í gegnum“ í 1. málslið komi: um.

b. Í stað orðanna „slíkri ákvörðun Alþingis“ í 2. málslið komi: ákvörðun um tengingu með sæstreng.

Undir álitið skrifa hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður, Njáll Trausti Friðbertsson framsögumaður, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Birgir Ármannsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Ég vil síðan vekja athygli á því að með þingsályktunartillögunni er fylgiskjal þar sem fyrirvarinn kemur fram sem við eyddum miklum tíma í, það var ótrúleg umræða sem við áttum hérna í vor þar sem alltaf var verið að leita að fyrirvara. Það var svolítið erfitt þegar menn komust ekki að í þingsal til að mæla fyrir fyrirvaranum. Hann var löngu tilbúinn. Hann var alltaf í skjölum málsins sem við vorum að eiga við. Mér þótti margt hjákátlegt sagt í vor og sumar tengt því og vil benda hv. þingmönnum á að í 3. gr. í fylgiskjalinu er fyrirvarinn. Þar stendur:

„Þar sem íslenska raforkukerfið er ekki tengt raforkukerfi annars lands, með grunnvirkjum yfir landamæri, koma ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 sem varða raforkutengingar milli landa ekki til framkvæmda á Íslandi á meðan slíkri tengingu hefur ekki verið komið á.

Grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verða ekki reist nema að undangengnu samþykki Alþingis og endurskoðun á stjórnskipulegum lagagrundvelli reglugerðarinnar.“

Þar er fyrirvarinn kominn fram.

Að lokum vil ég nota tækifærið til vitna í fyrri umr. sem við áttum í apríl um þau mál, með leyfi forseta, en í ræðu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar segir:

„Í undirbúningi er flutningslína, norðausturlína svokölluð, sem ber miklu meira rafmagn en við þurfum á að halda. Hún ber nægilegt rafmagn til þess að fóðra sæstreng, fyrir utan að búið er að veita 100 rannsóknarleyfi fyrir svokallaðar smávirkjanir sem eru 9,9 megavött, eða aðeins minni, til að falla undir radarinn varðandi umhverfisáhrif. 100 slíkar smávirkjanir og leyfishafinn er sá sami.“

Leyfishafi þessara 100 leyfa, segir hv. þingmaður, er sá sami.

„Við erum því ekkert að tala um einhverjar krúttlegar bændavirkjanir, að einhver bóndi norður í landi eða fyrir vestan sé að virkja bæjarlækinn. Við erum að tala um að einkafyrirtæki er búið að ná sér í 100 rannsóknarleyfi til að byggja 100 smávirkjanir. Þessi 100 leyfi, ef af virkjun yrði, gætu þá orðið til þess að framleidd yrðu í kringum 1000 megavött, sem er allmikið afl og örugglega hægt að nota til að fóðra sæstreng ef til þess kæmi.“

Ég náði í umræðu í apríl að ræða þetta með norðausturlínuna sem hv. þingmaður talaði um þá. Það getur vel verið að ég klári á eftir að fara aðeins í gegnum það mál á nýjan leik. Hins vegar skulum við aðeins ræða þau 100 rannsóknarleyfi sem var mikill æsingur um, 100 rannsóknarleyfi á einn leyfishafa. Svo er farið að tengja þetta við sæstreng, að þetta dugi fyrir sæstreng. Það rétta er að við svari hv. þm. Ólafs Ísleifssonar sem fram er komið á þinginu eru staðreyndirnar þær að það eru 28 umsóknir um rannsóknarleyfi fyrir virkjanir undir 10 megavött. Það er ekki einn leyfishafi sem er að spyrja eða óska eftir því, þeir eru 13, svo því sé algjörlega haldið til haga. Þetta er þvílík bjögun á umræðunni sem hefur verið svo slæm í málinu. Miklu af rangfærslum hefur verið haldið fram. Stundum þarf rétt að kynna sér hlutina, rétt að fara undir yfirborðið, en það er kannski enginn tilgangur í því að fara rétt með málið.

Mér leiðist rosalega þegar menn fara rangt með staðreyndir. Það er ekki fallegur leikur gagnvart íslensku samfélagi þegar menn gera slíka hluti eins og í þessu máli, að koma fram eins og menn gera þar og gerðu. Ég held að oft hafi verið minnst á þetta, meira að segja í umræðunni, í málþófinu, aftur og aftur. Þetta komment kom fram minnir mig um miðjan apríl þannig að ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að menn fari svolítið í að uppfræða okkur öll um þau mál eins og öll þessi umræða hefur mikið verið um, þ.e. orkustefnu fyrir íslenska þjóð. (Gripið fram í: Rétt.) Hún hefur verið á röngum nótum að langmestu leyti. Ég ætla hins vegar að nota tækifærið úr því að ég á svona góðan tíma, [Hlátur í þingsal.] sem maður á ekki svo oft í pontu Alþingis, til að ræða hinn hlutann um undirbúning á flutningslínu, norðausturlínunni svokölluðu, sem ber miklu meira rafmagn en við þurfum á að halda. Hún hefur nægilega mikla getu til að fóðra sæstreng. Núverandi byggðalína á Norðurlandi er 40 ára. Þetta er elsti hlutinn af byggðalínunni sem tengist Akureyri til vesturs. Hún er frá 1974, það eru 45 ár. Um áratug hafa raflínurnar sem eru hluti af meginflutningskerfi raforku hér á landi verið fulllestaðar á Norðurlandi. Það er ástæðan fyrir því að við erum að reyna að koma á Blöndulínu 3, Hólasandslínu 3 og Kröflulínu 3. Það er mikil móðgun fyrir íbúa Norðurlands að fá slíkan málflutning eins og fór fram í apríl þar sem rangindum var stöðugt haldið að fólki varðandi þau mál. Það er þó ánægjulegt að hv. þingmaður er ekki í meiri hluta í ríkisstjórn vegna þess að nú eru framkvæmdir hafnar við Kröflulínu 3. Þær hófust síðla sumars þannig að þær verða varla stoppaðar af Miðflokksmönnum úr þessu. Það er ánægjulegt.

Síðan vonumst við náttúrlega öll til þess, og ég vona að ég fái þá hv. þingmenn Miðflokksins með mér í lið, að við höldum áfram á þeirri vegferð að tryggja Hólasandslínu 3 og Blöndulínu 3 og tryggja þar með raforkuöryggi í Eyjafirði. Auðvitað eigum við líka að fara að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum og Suðurnesjum því að þetta eru þau þrjú svæði sem hafa verið langverst stödd í raforkumálum þjóðarinnar í a.m.k. 10–15 ár.

Ég held að kominn sé tími til að ég stoppi núna. Ég held að það sé rétt að við horfum til framtíðar og höfum einhverja framtíðarsýn í raforkumálum þjóðarinnar og förum að ræða orkumál á Alþingi af meira viti en hefur verið gert undanfarna nokkra mánuði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)