149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Eitt þingmál, mál 777, er orkupakkinn sjálfur. Það er í utanríkismálanefnd. Svo er það sem er í atvinnuveganefnd. Við erum að ræða þau mál saman.

Fyrst er málið um sjálfstæði Orkustofnunar. Málið sem við erum að ræða núna varðar þingsályktunartillögu um þennan fyrirvara. Mál nr. 3 er að festa í lögin að það þurfi að fara eftir þeim fyrirvara sem var settur samkvæmt íslenskum landslögum. Og hver er fyrirvarinn? Það skiptir máli. Tvö af þessum málum eru fyrirvari annars vegar í formi þingsályktunartillögu sem er sett inn í stefnu um uppbyggingu flutningskerfis raforku og fjórða málið, sem verður mælt fyrir á eftir, varðar raforkuna, að þetta sé sett inn í lögin þannig að fyrirvarinn sé tryggður í lögum. Hvað segir fyrirvarinn? Er hann góður? Já, fyrirvarinn er góður. Er hann nægur? Við vitum það ekki. Það er það sem þeir sem eru á móti þriðja orkupakkanum segja, að hann sé mögulega ekki nægur. En hann getur ekki verið slæmur. Þá spurði ég einmitt Orkuna okkar þegar þeir komu fyrir atvinnuveganefnd: Ókei, ég heyri hvað þið eruð að segja, þið hafið áhyggjur af þessu, þið viljið ekki þriðja orkupakkann, þið viljið segja ykkur alveg frá orkusamstarfinu í heild sinni þegar kemur að EES-samningnum. Erum við þá ekki að tala um að segja upp EES-samningnum?

Þetta skiptir allt saman máli í heildarsamhenginu. Tölum hreint og beint um það hvað við erum raunverulega að tala um. Svo spurði ég: Getið þið ekki samþykkt það ef það er gott? Á fundinum sögðu þeir: Já, það er gott við þessa fyrirvara að þeir koma fram. Þeir telja bara að þeir haldi ekki. En það er ekkert slæmt við þá og þeir gætu haft einhver jákvæð áhrif.

Ég sagði: Getið þið ekki sett það í umsögn og sent á nefndina þannig að við höfum það sem part af skjölunum? Ég sagði þetta í vor þegar Frosti Sigurjónsson kom frá Orkunni okkar. Ég sagði þetta núna aftur þegar þeir komu í haust. Þeir senda ekki inn umsögn, þeir vilja ekki tala um það jákvæða í þessu sem segir ákveðna sögu.

Við verðum að tala um bæði það jákvæða og neikvæða í þessu. Það eru kostir og gallar. Það sem er sagt í þessu máli sérstaklega er að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfis Íslands við raforkukerfi annarra landa í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis. En fólk treystir ekki Alþingi, ókei, en það er búið að festa það í lög. Og hvað verður að gera? Jú, það verður farið í víðtækar rannsóknir á umhverfis- og alls konar áhrifum af þessum þannig að það tefur a.m.k. ferlið (Forseti hringir.) varðandi innleiðingu þriðja orkupakkans, varðandi sæstrenginn, það tefur það og það þýðir að Miðflokkurinn og aðrir sem vilja ekki sæstrenginn geta stundað málþóf á Alþingi af því að það verður ekki samþykkt án þess að Alþingi samþykki það. Það er aftur hægt að fara í málþóf. Það er búið að búa til ný tækifæri fyrir málþóf (Forseti hringir.) með þessari tillögu. Ef menn ætla að vera málefnalegir trúi ég því ekki að Miðflokkurinn ætli að vera á móti þessu.