149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu. Það sem ég velti fyrir mér er frumvarp til laga sem er breyting á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum, í raun ein grein. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Með greininni er lagt til að tekið verði fram í 9. gr. a raforkulaga, nr. 65/2003, að um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.“

Það sem ég velti fyrir mér er: Hvernig er staðan ef þessi stefna stjórnvalda fer ekki í samræmi við þá stefnu sem verið er að innleiða með orkupakkanum? Það kom fram í umræðunni í gær að Belgía á í einhverjum vandræðum vegna þess að þar innleiddu menn ekki rétt tilskipun Evrópusambandsins, eða eru alla vega sakaðir um það. Þeir vildu halda sinni eigin stefnu umfram tilskipun Evrópusambandsins. Þessi setning hér, þar sem segir „fari samkvæmt stefnu stjórnvalda“ — eru einhver líkindi með Belgíu-málinu og þessu? Við virðumst ætla að innleiða þetta samkvæmt okkar stefnu, setja ákveðin skilyrði fyrir innleiðingunni. Er það annars konar mál, eða má líkja þessu við Belgíu-málið?