149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:55]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og vil láta þess getið að ég taldi, greinilega ranglega, að við værum að ræða þessi mál öll saman eins og var lagt upp með, eða ég taldi mig hafa skilið. En ég fagna þessu andsvari hv. þingmanns.

Kannski er rétt að vekja athygli á því í þessu sambandi að það er út af fyrir sig ágætt að lögfesta og gera þingsályktunartillögu, alveg hægri vinstri eins og stundum er tekið til orða nú til dags, um að hér verði ekki lagður sæstrengur nema með samþykki yfirvalda. Það er bara ágætt.

Það sem er uppi í þessu er að það verður enginn sæstrengur lagður hingað gegn okkar vilja og það er alveg ljóst að það verður ekki flutt hingað inn hrátt kjöt án okkar vilja. Við erum í nákvæmlega sömu stöðu hvað þessi tvö mál varðar. Í hráa kjötinu féll á okkur dómur EFTA-dómstólsins um að við hefðum, eins og það heitir, framið samningsbrot og það af alvarlegra tagi með því að viðhalda 30 daga frystiskyldu við 18°C í mínus. Við getum haldið því áfram. En meðan við gerum það verðum við að þola það og greiða fyrir það með skaðabótum. Og nákvæmlega sama staða er uppi í þessu máli.

Ég vitna hér enn einu sinni í neðanmálsgrein 62 þeirra félaga Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar. Þeir segja um sæstreng: (Forseti hringir.)

„Ekki má gleyma því að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis þar að lútandi gæti fyrirtækið snúið sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamáli gegn Íslandi. Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.“

Þetta er nákvæmlega sama málið.