149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Nákvæmlega. Þannig að við tökum bara sjónarmiðin saman. Þessi mál, þessi tvö mál, annars vegar þingsályktun um fyrirvarann og hins vegar málið sem fylgir í kjölfarið um að lögfesta þann fyrirvara sem er í þingsályktuninni, eru ekkert slæm mál. En hv. þm. Ólafur Ísleifsson segir að það bara haldi ekki og á endanum gætum við lent í skaðabótakröfu og þá muni Alþingi þurfa að beygja sig undir það. Þá er það alveg skýrt og þetta skiptir máli.

Þessi frumvörp gera ekkert annað en að styrkja stöðu minni hluta á Alþingi hverju sinni því að þá verður, ef leggja á sæstreng, Alþingi að koma að því. Menn geta ekki farið einhverjar krókaleiðir, reynt að komast fram hjá einhverju. Þá er bara ljóst, Alþingi er að segja það, að Alþingi verður að hafa aðkomu að málinu. Þessi mál styrkja bara stöðu minni hlutans hverju sinni, hann gæti þá reynt að stöðva það með málþófi eða eftir öðrum leiðum. Þá er hægt að varpa fram hugmyndinni: Eigum við að vera í EES o.s.frv.? Hvað þýðir þetta raunverulega? Þá er hægt að eiga allt samtalið áfram.

Það er það sem þessi tvö mál gera og þess vegna er ég hlynntur þeim. Ég greiði atkvæði á móti orkupakkanum sjálfum út af vafanum með stjórnarskrána. Eins og ég hef sagt er hann ekki mikill, hann er mjög lítill, en samt er um vafa að ræða. Ég hef skrifað undir eið um að halda stjórnarskrá og þess vegna læt ég stjórnarskrána njóta vafans. Ég er svolítið, hvað á að segja, fastur með það. Ef ég skrifa undir eið þá vil ég halda hann. Mér finnst að ganga eigi alla leið með það. Margir eru ósammála, margir túlka þetta aðeins öðruvísi og ég ber alveg virðingu fyrir því, en ég er þar.

Það er bara mjög gott að fá þetta alveg skýrt. Þessi tvö mál gera ekkert slæmt en sumum finnst bara verið að slá ryki í augu fólks, að það haldi ekki, þess vegna getur það mælt á móti því. En það er ekkert á móti því að greiða atkvæði með þessum málum. Þau gera ekkert slæmt. Þau festa bara það sem fólk segir að sé þegar til staðar. Í orðræðunni er bent á að sumum finnist að verið sé að slá ryki í augu fólks, að það sé bara allt saman skýrt á borðinu hver sjónarmiðin eru.