149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[11:59]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka þakkir mínar til hv. þingmanns. Það er nákvæmlega þessi staða sem er uppi að það er enginn skaði skeður þó að menn innleiði þetta og hafi uppi þingsályktanir og lagafrumvarp um að árétta að þessar ákvarðanir séu undir íslenskum stjórnvöldum komnar. Það er ekki vandamálið. Vandamálið er nákvæmlega eins og ég rakti í kjötmálinu. Það mun enginn beita okkur ofbeldi til að við látum af þeirri háttsemi að gera þá kröfu um innflutt kjöt að það sæti frystiskyldu í 30 daga við mínus 18°C. Við höfum alveg fullan rétt til að gera það, en það kostar okkur og það er búið að kosta ríkissjóð nú þegar fjárhæðir sem taldar eru í milljörðum.

Það er nákvæmlega þetta sem er uppi. Höfundarnir tveir sem rituðu álitsgerðina, Stefán Már og Friðrik Árni — ég geri mér alveg fulla grein fyrir því að þessi álitsgerð er eins og fleinn í holdi þeirra sem ákafast styðja þessa innleiðingu á þriðja orkupakkanum. En þessir mikilsvirtu lögfræðingar sjá ástæðu til þess að vara Alþingi Íslendinga við því að þessi hætta sé fyrir hendi. Þessi hætta er rakin og greind á bls. 35 og í neðanmálsgrein 62. Þetta getur hver og einn kynnt sér. Þetta eru viðvörunarorð (Forseti hringir.) sem ég tel ekki unnt að líta fram hjá. Fjárhæðirnar yrðu ósmáar í þessu máli ef sú staða kæmi upp sem þeir lýsa.