149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá meiri hluta atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum, tilvísun í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín 28 gesti og 12 umsagnir. Með frumvarpinu er lagt til að við raforkulög verði bætt við nýju ákvæði um að um tengingu raforkukerfis landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng fari samkvæmt stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Megintilgangur frumvarpsins er að tryggja að ef ákvörðun um að tengja raforkukerfi landsins við raforkukerfi annarra landa verður tekin skuli framkvæmdin vera í samræmi við stefnu stjórnvalda á hverjum tíma. Er því verið að breyta raforkulögum til samræmis við tillögu til breytingar á þingsályktunum sem var lögð fram samhliða frumvarpi þessu.

Fyrir nefndinni var getið um ýmis sjónarmið um stjórnskipuleg álitamál tengd innleiðingu þriðja orkupakka ESB. Þau heyra ekki efnislega undir nefndina og hafa fengið umfjöllun fyrir utanríkismálanefnd. Verður því ekki fjallað um þau atriði hér.

Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið með og á móti lagningu sæstrengs. Nefndin áréttar að með lagabreytingu er ekki kveðið á um heimild til lagningar sæstrengs heldur er verið að festa í lög að slík framkvæmd verði að vera í samræmi við stefnu stjórnvalda hverju sinni.

Meiri hluti nefndarinnar bendir á að verið er að breyta lögum til samræmis við fyrrnefnda breytingu á þingsályktun þar sem lagt er til að kveðið verði á um að ekki verði ráðist í lagningu sæstrengs nema að undangengnu samþykki Alþingis. Bendir meiri hlutinn á að ekki er tekin afstaða til slíkrar framkvæmdar heldur er undirstrikað að ákvörðun um lagningu sæstrengs verði ekki tekin nema að vel ígrunduðu máli og með aðkomu Alþingis. Bendir meiri hlutinn enn fremur á að eðlilegt er og nauðsynlegt að samþykki Alþingis liggi fyrir um það hvort í slíka framkvæmd verði ráðist þar sem ákvörðun þar um getur haft mikil áhrif á mikilvæga almannahagsmuni.

Meiri hlutinn áréttar enn fremur að áður en samþykki Alþingis verði leitað skal liggja fyrir ítarleg og heildstæð kostnaðar- og ábatagreining þar sem lagt er mat á umhverfisleg, samfélags- og efnahagsleg áhrif tengingar með sæstreng. Þá fylgir reglugerð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um að koma á fót samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði sem fylgiskjal með áliti þessu.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Í stað orðanna „í gegnum“ í 1. gr. komi: um

2. Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum (flutningskerfi raforku).

Undir álitið skrifa hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður, Njáll Trausti Friðbertsson framsögumaður, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Birgir Ármannsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Eins og ég rakti áðan varðandi þingsályktunartillöguna er fylgiskjal með þessu frumvarpi og þar kemur fyrirvarinn fram sem við ræddum áðan í 3. gr. Ég ætla rétt í lokin að lesa hann:

„Þar sem íslenska raforkukerfið er ekki tengt raforkukerfi annars lands, með grunnvirkjum yfir landamæri, koma ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 sem varða raforkutengingar milli landa ekki til framkvæmda á Íslandi á meðan slíkri tengingu hefur ekki verið komið á.

Grunnvirki sem gera mögulegt að flytja raforku milli Íslands og orkumarkaðar ESB verða ekki reist nema að undangengnu samþykki Alþingis og endurskoðun á stjórnskipulegum lagagrundvelli reglugerðarinnar.“