149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:07]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M):

Herra forseti. Við erum að ræða 792. mál, breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003. Við ræðum þennan morguninn og í dag saman þau þrjú mál sem lögð eru fyrir Alþingi í tengslum við þriðja orkupakkann eftir að hafa rætt þingsályktunartillögu utanríkisráðherra í gær. Sú tilhögun var valin og kynnt hér að þessi mál yrðu þrjú. Þau yrðu rædd í einu í samhengi því að auðvitað eru þetta skyld mál. Ég var kannski ekki alveg á hárréttum stað í dagskránni þegar ég mælti fyrir í áliti minni hluta. En mig langar, með leyfi forseta, að bæta aðeins við það sem ég hafði um álit minni hlutans að segja og undirstrika og árétta að minni hlutinn tekur undir tillögu Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar um að málið verði tekið upp að nýju í sameiginlegu EES-nefndinni á grundvelli 102. gr. EES-samningsins með það fyrir augum að Ísland fái undanþágu, m.a. frá umdeildum reglugerðum Evrópusambandsins, nr. 713 og 714 frá 2009.

Sú leið, ég vek athygli á þessu, hefði þann kost, lögfræðilega, umfram þá leið sem valin var að í henni fælist ekki hin lagalega óvissa sem fylgir leiðinni sem farin er af hálfu stjórnvalda. Þegar ég ræði um lagalega óvissu, herra forseti, er ég að vísa til þess sem frá þeim félögum Stefáni Má og Friðriki Árna hefur komið og þeir hafa vakið athygli á þessari lagalegu óvissu. Þessi lagalega óvissa snýst kannski í sínum innsta kjarna um þjóðréttarlegt gildi hinna lagalegu fyrirvara sem að dómi, a.m.k. mjög færra lögspekinga, er ekkert, svo ég vitni til orða prófessors Davíðs Þórs Björgvinssonar á fundum utanríkismálanefndar. Hann sagði það fyrst 8. maí að þjóðréttarlegt gildi lagalega fyrirvarans væri ekkert, hann væri bara til heimabrúks. Hann ítrekaði það á fundi 19. ágúst.

Herra forseti. Minni hlutinn telur felast í framangreindu lögfræðiáliti umræddra lögfræðinga, Stefáns Más og Friðriks Árna, að EES-samningurinn gerir ekki ráð fyrir þeirri aðferð sem stjórnvöld velja, heldur þvert á móti mæli samningurinn, samanber 102. gr. , fyrir um þá málsmeðferð sem slíkir fyrirvarar séu gerðir eða samþykktir í sameiginlegu EES-nefndinni. Hér erum við komin að atriði sem ég tel skipta mjög miklu máli.

Aðferð hins lagalega fyrirvara er ekki að finna í EES-samningnum. Sú aðferð sem við Miðflokksmenn höfum talað fyrir í samræmi við aðaltillögu þeirra tveggja höfunda sem ég hef vitnað til er í samræmi við EES-samninginn. Og það sem meira er, ég leyfi mér að vísa til orða hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í gær þegar hann lýsti þeirri skoðun sinni og ítrekaði þegar hann svaraði andsvari frá þeim sem hér stendur, að hann teldi að engar hamfarir yrðu ef svo færi að við myndum taka upp mál í sameiginlegu EES-nefndinni. Það eru hér aðilar sem hafa haldið því fram að slíkt myndi setja EES-samninginn í uppnám á fyrstu dögum umræðu hérna, eða á fyrsta degi. Það mátti ráða af máli hæstv. utanríkisráðherra að EES-samningurinn væri undir í þessu máli, annaðhvort væri að samþykkja þetta mál eða að EES-samstarfið væri í hættu. Keyptur var rándýr erlendur sérfræðingur að því er virðist til að draga úr kjarki manna hér og reyna að lama þá miklu andstöðu sem er við málið úti um allt land meðal meiri hluta þjóðarinnar, að því er best verður séð og skoðanakannanir sýna.

Herra forseti. Það verður trauðla séð að EES-samningurinn heimili að reglugerðir og eftir atvikum tilskipanir séu innleiddar í landsrétt með lagalegum fyrirvörum. Ekki verður betur séð en að Ísland baki sér þjóðréttarlega skuldbindingu um að innleiða gerðir þriðja orkupakkans í landsrétt, sér í lagi reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins nr. 713 og 714 frá 2009, í samræmi við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, samanber 7. gr. samningsins, óháð þeim þingmálum sem liggja fyrir hv. atvinnuveganefnd í málinu. Minni hlutinn lýkur áliti sínu með því að segja að hann telji réttast að Alþingi hafni innleiðingu þriðja orkupakkans og skjóti málinu til sáttameðferðar á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Herra forseti. Þær tvær leiðir sem eru tilgreindar í álitsgerð Friðriks Árna og Stefáns Más eru annars vegar aðaltillaga þeirra sem þeir hafa staðfest að sé sú tillaga sem þeir leggja áherslu á, þ.e. að skjóta málinu til sameiginlegu nefndarinnar. Sameiginlega EES-nefndin er samstarfsvettvangur Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna þriggja, Íslands, Noregs og Liechtensteins. Þar eru teknar mjög miklar ákvarðanir. Það jaðrar við, herra forseti, að þær ákvarðanir sem þar eru teknar hafi lagagildi. Ef það er þannig, eins og sumir halda fram, að við eigum engan kost annan en að samþykkja þetta ella sé samstarfið, Evrópusamstarfið sem við eigum í, í uppnámi, sem mjög margir telja okkur mjög mikilvægt. Hvað er þá um löggjafarvaldið að segja? Er það þá þannig að það sé ekki eins og segir í 2. gr. stjórnarskrárinnar, að forseti Íslands og Alþingi fari saman með löggjafarvaldið? Er komin einhver nefnd úti í Brussel sem í reynd, de facto, eins og einhver myndi segja, hafi hér löggjafarvald, þar á meðal til að innleiða evrópskar reglugerðir sem hefur verið andmælt og varað við í mjög vandaðri álitsgerð þeirra tvímenninga sem ég hef hér vitnað til?

Og hverjar eru ástæðurnar sem þeir nefna? Þeir segja að erlend stofnun fái ákvörðunarvaldið, eða a.m.k. óbein áhrif á skipulag, ráðstöfun og nýtingu mikilvægra íslenskra orkuauðlinda. Höfundarnir skáletra síðustu þrjú orðin; mikilvægra íslenskra orkuauðlinda, til að leggja áherslu á orð sín og viðvörun sína. Þeir segja að í 25 ára sögu samningsins hafi aldrei, öllu heldur séu engin fordæmi fyrir öðru eins valdframsali og nú er ráðgert í 25 ára sögu samningsins af okkar hálfu. Þeir bæta við að þessu megi líkja, með hæfilegri einföldun, við að erlendri stofnun væri falið ákvörðunarvald um heildarafla á Íslandsmiðum. Er hægt að hringja viðvörunarbjöllum hærra en þessir tveir fræðimenn gera í þessu áliti?

Herra forseti. Ég undirstrika og árétta að það er auðvitað mjög mikilvægt að fram sé komin sú skoðun hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, sem vafalaust er mynduð á grundvelli mikillar þekkingar og langrar reynslu, að okkur sé ekki sá háski búinn sem sumir hafa viljað halda að þjóðinni og hv. þingmönnum, að ef valin yrði sú leið sem liggur beinast við í þessu máli, þ.e. að leita eftir því í ljósi sérstöðu Íslendinga og þjóðarvilja að Ísland verði undanþegið þessum tveimur reglugerðum Evrópusambandsins.