149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að halda aðeins áfram með andsvör og reyna að fá svör sem tókst ekki að fá áðan sökum tímaskorts. Við hv. þm. Ólafur Ísleifsson erum sammála um, þegar kemur að því að framselja almenningsvald á Íslandi út fyrir landsteinana, að ef það stangast hugsanlega á við stjórnarskrá þá viljum við láta stjórnarskrána njóta vafans. Í þessu tilfelli er vafinn mjög lítill en meðan hann er til staðar vil ég láta stjórnarskrána njóta vafans. En ég ber virðingu fyrir því að aðrir túlki það öðruvísi en ég geri.

Þegar kemur aftur á móti að því að færa almannavaldið frá stjórnmálamönnum á Íslandi til almennings sjálfs töluðum við áðan um það að þjóðin sjálf ákvað að hún vildi grundvalla nýja stjórnarskrá á frumvarpi stjórnlagaráðs. Þetta var í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. Við tókum aðeins snúning á þessu áðan. Ef ég skildi hv. þm. Ólaf Ísleifsson rétt vill hann ekki alveg fylgja því sem var í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu af því hann vill meina að margir hafi misskilið spurninguna o.s.frv. Ég ber virðingu fyrir því sjónarmiði þingmannsins þótt ég sé ósammála því. Það verður alla vega að grundvalla nýja stjórnarskrá á frumvarpi stjórnlagaráðs. Í því frumvarpi eru ákvæði um náttúru Íslands, umhverfi og náttúruauðlindir. Ef nákvæmlega þau ákvæði væru núna í stjórnarskrá myndu þau koma í veg fyrir að einhver þjóðréttarsamningur, efnahagssamningur eða alþjóðasamningur við EES eða einhverja aðra gæti farið inn á það svið. Þá værum við búin að tryggja náttúruauðlindir okkar, þær væru undir stjórn og í eigu Íslendinga. Við værum búin að tryggja umhverfisvernd, að það væri ekki hægt að þvinga af stað einhverjar virkjanir o.s.frv. Við værum búin að tryggja þetta.

Þessi tvö ákvæði á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs eru einmitt undir í vinnu sem Katrín Jakobsdóttir (Forseti hringir.) setti af stað með formönnum allra flokka. Er þingmaðurinn ekki samþykkur því og því að þjóðin sjálf geti kallað á þjóðaratkvæðagreiðslur (Forseti hringir.) um mál, 10% kjósenda eins og er grundvöllurinn í frumvarpi stjórnlagaráðs? (Forseti hringir.) Er hann ekki hlynntur því að þetta sé klárað fyrir lok kjörtímabilsins eins og hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir hefur stefnt að? Styður hann það ekki?