149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:20]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann nefnir í fyrsta lagi að vafinn sé að hans dómi ekki mikill, lítill ef ég skildi hv. þingmann rétt. Þeir tveir ágætu fræðimenn sem oft er vitnað til tvítaka í sínu áliti að þeir telja efann verulegan. Þeir nota orðið verulegur í tvígang. (JÞÓ: Ekki varðandi stjórnarskrána sjálfa. Þeir segja … engan vafa.) Þeir segja það í álitinu. Við getum auðvitað rætt hvað stendur í álitinu. Það sem stendur í álitinu er að í tvígang er talað um verulegan vafa en þeir segja síðan að sú leið sem þarna er, leið B, sem virðist kannski vera upprunnin í utanríkisráðuneytinu, maður veit það ekki, feli í sér að það verði ekki árekstur við stjórnarskrána. En á hverju byggist það? Tökum vel eftir þessu. Á hverju byggist það? Það byggist á því og þeir segja að á meðan ekki er raforkutenging reynir ekkert á þessu ákvæði og þá eru þau eins og óvirk. Og samkvæmt því rekast þau náttúrlega ekki á stjórnarskrána, a.m.k. ekki meðan þau eru óvirk.

Það er ekki beint mikill glæsileiki yfir þessari lausn og ég efast um að þetta yrði talið til fyrirmyndar í kennslubókum í lögfræði. Þessi lausn er á skjön við Evrópurétt þar sem ekki er gert ráð fyrir því að gerðir séu innleiddar með fyrirvara (Forseti hringir.) heldur er gert ráð fyrir því að menn leiti samkomulags á vettvangi EES-nefndarinnar. (Forseti hringir.) Einhliða yfirlýsingar hafa náttúrlega ekki mikla þýðingu, hvorki að landsrétti né að þjóðarétti, og þær eru ekki skuldbindandi fyrir viðtakanda slíkra yfirlýsinga.