149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:25]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það skal ekki standa á mér að svara þessu. Ég er mjög hlynntur því að þjóðin hafi ákvörðunarvald í eigin málum. Ég er mjög hlynntur því að það séu rammgerðar varnir utan um íslenska náttúru þannig að ég vænti þess að þetta svari spurningunni. (JÞÓ: Viltu hafa það í stjórnarskrá? …það ákvæði …)(Forseti hringir.)

(Forseti (BN): Forseti biður hv. þingmann að halda ekki ræður úti í sal.)

Herra forseti. Ég hef lýst afstöðu minni, ég hef ekkert við þá vinnu sem er í gangi á milli flokka undir forystu forsætisráðherra að athuga. Ég hlakka bara til að sjá hvað kemur út úr því og vænti ekki nema góðs af þeim störfum. Ég er meðmæltur aðgerðum og ráðstöfunum sem eru fallnar til þess að auka það sem stundum er kallað beint lýðræði. Ég er sömuleiðis mjög eindregið hlynntur vernd íslenskrar náttúru og umhverfis til sjós og lands svo ég segi það nú. Ég hlakka til að sjá það sem fram fer á þessum vettvangi og vænti þess að um þessa tillögur geti tekist víðtæk samstaða. Það er eitt af því sem ég tel vera mjög æskilegt og nauðsynlegt þegar um breytingar á stjórnarskrá er að ræða.

Nú vænti ég þess að ég sé búinn að svara hv. þingmanni. (JÞÓ: Næstum því.)