149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður ræddi enn á ný um einhvers konar líkindi með ferskkjötsmálinu og því máli sem við höfum rætt í þinginu síðustu daga sem snýr að orkumálum þjóðarinnar, en þessi mál eru með engu móti hliðstæð. Í kjötmálinu komust dómstólar að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi ekki innleitt samningsskuldbindingu samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar með réttum hætti. Innleiðing á Íslandi var með þeim hætti að frumvarp til laga vegna innleiðingarinnar var lagt fram á Alþingi nokkrum sinnum án þess að hljóta afgreiðslu þegar það var loks samþykkt eftir nokkrar tilraunir í nokkuð breyttri mynd frá því sem upphaflega var lagt til. Tillaga utanríkisráðherra er um að reglur þriðja orkupakkans verði innleiddar, en liggi að hluta í dvala þar sem þær eigi ekki við um Ísland. Það verða engin líkindi með kjötmálinu nema Alþingi ákveði í fyrsta lagi að leggja sæstreng og ákveði svo sjálft að fylgja ekki reglunum um það, um innleiðingu.

Ef maður fer að hugsa um þetta Belgíumál sem hv. þingmenn Miðflokksins hafa verið að tala um undanfarnar vikur, er þetta eiginlega svolítið, held ég, það sem málið í Belgíu snýst um, að þeir semja um að verða hluti af einhverju en innleiða það ekki, svipað eins og með kjötmálið okkar sem var ákveðið hagsmunamat sjávarútvegs- og landbúnaðar fyrir um 10, 12 árum og sem það varð til um.