149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:29]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er auðvitað mjög gagnlegt að fá viðhorf hv. þingmanns — og ég þakka fyrir andsvarið — til vandasamra lögfræðilegra spurninga, mjög áhugavert. En ég hefði talið að í svona mikilvægu máli væri kannski einnar messu virði að fá álit viðurkenndra sérfræðinga í þessum efnum, bæði varðandi samanburðinn á milli orkumálsins og kjötmálsins sem einhver vafi virðist leika á í huga hv. þingmanns og sömuleiðis um samanburðinn á milli aðstöðu okkar annars vegar og þeirrar aðstöðu sem Belgía er í hins vegar. Sannast sagna verður ekki annað séð en að ráðagerðir ríkisstjórnarinnar feli það í sér samkvæmt þessari leið B, að samþykkja orkupakkann en samþykkja hann samt ekki vegna þess að það séu lagalegir fyrirvarar sem koma í veg fyrir að þessar gerðir hafi gildi. Hv. þingmaður getur kannski fjallað um þetta ef honum sýnist svo. Þess vegna er það þannig að bersýnilegt er að þeir félagar, Stefán Már og Friðrik Árni, hafa af þessu áhyggjur eins og glögglega má sjá í bréfi þeirra til utanríkisráðherra 10. apríl sl. þar sem þeir fjalla um möguleikann á því að lagalegi fyrirvarinn verði tilefni fyrir ESA til að höfða gegn okkur samningsbrotamál.