149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég hef réttar upplýsingar eru þetta sirka 690 mál sem eru í gangi innan Evrópusambandsins með svipuðum hætti og þetta svokallaða Belgíumál sem er rætt hér. Og Belgar eiga sjálfir í um 20 málum.

Spurningin er bara: Hefur hv. þingmaður einhverjar hugmyndir um hvað nákvæmlega málið snýst um? Snýst það um að þeir eru ekki búnir að innleiða þetta, hefur ferlinu seinkað eða annað? Ágætt að hv. þingmaður fari svolítið betur í það.

En svo langar mig aðeins að ræða, vegna þess að bréf Stefáns Más og Friðriks Hirsts frá 10. apríl hefur verið margrætt hér. Nú þykist ég hafa séð að hv. þingmaður var á fundi utanríkismálanefndar fyrr í þessum mánuði þar sem þeir komu fyrir nefndina og það sem kemur fram í máli þeirra er eftirfarandi:

„Séu fyrirliggjandi skjöl lesin saman, þ.e.a.s. þingsályktunartillaga utanríkisráðherra og þingsályktunartillaga ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, auk lagafrumvarpa hins síðarnefnda, ásamt greinargerðum og öðrum gögnum, teljum við að fyrirvörunum sé þar réttilega haldið til haga.“

Þetta er það nýjasta sem kemur frá þessum lögspekingum sem hafa fjallað um málið. En hv. þingmaður er sífellt að tala um eldri tíma og eldri gögn. Þetta er það nýjasta í málinu.

Það sem kemur mér á óvart í málinu er að það lítur út fyrir að Stefán Már og Friðrik Hirst hafi ekki verið með heildarmyndina fyrr en á þessum fundi fyrr í þessum mánuði, sem snýr að heildarmyndinni og er meðal þeirra mála sem við erum að mæla fyrir í atvinnuveganefnd.

Er hv. þingmaður sammála mér um það að þessum lögspekingum sem hann vitnar oft og títt í — þetta hlýtur að vera mjög mikilvægt í umræðunni í dag. Þetta er það nýjasta sem hefur komið fram og hefur komið fram í fjölmiðlum.