149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:33]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Ólafur Ísleifsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal ekki gera lítið úr mikilvægi þessa bréfs, en hvert er efnið? Þeir telja, lýsa því að þeir geri ráð fyrir að þessir fyrirvarar séu nægilega kynntir. Þetta er eiginlega varla lögfræðilegt atriði, að þeir séu nógsamlega kynntir fyrir viðeigandi aðilum. Er eitthvert lögfræðilegt hald í því hvort þetta hafi verið nægilega kynnt? Lögfræðilegu spurningarnar í þessu eru ekki um hvort þetta hafi verið kynnt. Lögfræðilega spurningin er um hvort þessir lagalegu fyrirvarar hafi eitthvert þjóðréttarlegt gildi. Það er hin lögfræðilega spurning. Og það liggur fyrir í bréfi þeirra frá 10. apríl að þeir hafi efasemdir um það vegna þess að þeir vekja þar sjálfir máls á því að lagalegi fyrirvarinn, sem var þá talað um í eintölu, gæti orðið tilefni fyrir ESA til að höfða gegn okkur samningsbrotamál. Sama kemur fram í viðtali sem vefmiðilinn mbl.is átti við annan höfundanna, Friðrik Árna Friðriksson Hirst, þar sem hann lýsir áhyggjum sínum. (Gripið fram í: Hvenær?) Sama dag, 10. apríl sl.

Þetta er raunverulegt viðfangsefni. Ég ætla að leyfa mér að segja líka, vegna þess að hæstv. iðnaðarráðherra er hér í salnum, að ég tel að þetta mál sé svo alvarlegt, sú hætta sem við blasir, að við getum fengið yfir okkur samningsbrotamál og skaðabótamál, hugsanlega, í kjölfarið, að ástæða sé til að fresta þessu máli og kanna þennan þátt málsins betur.