149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:35]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Við ræðum þrjú þingmál sem tengjast hinum margumrædda svokallaða þriðja orkupakka. Eitt málið varðar þær lagabreytingar sem orkupakkinn kallar á, en þær lúta einkum að auknu sjálfstæði og valdheimildum raforkueftirlits Orkustofnunar. Hin málin tvö varða ákveðna grundvallarbreytingu sem við gerðum á málinu til að koma til móts við þær áhyggjur fólks að ekki væri nægilega skýrt að ákvörðun um mögulega lagningu sæstrengs væri í höndum okkar Íslendinga sjálfra og engra annarra. Nú telja að vísu flestir sérfræðingar að þriðji orkupakkinn breyti nákvæmlega engu um sjálfsákvörðunarrétt okkar hvað þetta varðar, en við höfum hlustað grannt og vel á áhyggjur fólks og höfum tekið þær alvarlega. Þess vegna lögðum við til þá breytingu á málinu, eða viðbót við málið, að sett yrði ákvæði um að sæstrengur verði ekki lagður nema með sérstöku samþykki Alþingis.

Það er því rangt sem stundum heyrist, að ekki hafi verið hlustað á áhyggjur fólks og að ekki hafi verið komið til móts við efasemdir. Málinu hefur verið frestað oftar en einu sinni til að gefa kost á meiri og ítarlegri umfjöllun og málinu hefur verið breytt til að koma til móts við áhyggjur og efasemdir.

Það er líka rangt sem stundum heyrist, að verið sé að keyra þetta mál í gegn. Alþingi var fyrst formlega upplýst um þriðja orkupakkann með minnisblaði frá iðnaðarráðuneytinu í júní árið 2010, fyrir níu árum. Málið var í kjölfarið eitt þeirra fyrstu sem hlaut ítarlega umfjöllun Alþingis í samræmi við reglur um þinglega meðferð EES-mála eftir að skerpt var á eftirfylgni með þeim reglum og þar í fararbroddi var hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann sat sem formaður hv. utanríkismálanefndar.

Á næstu sex árum, þ.e. til ársins 2016, fóru að a.m.k. níu minnisblöð til Alþingis um málið frá ráðuneytum og þrjár þingnefndir fjölluðu um málið og gáfu álit sitt á því. Þá var samið um undanþágur og aðlögun í sameiginlegu EES-nefndinni og það var á grundvelli þeirrar athugunar og umfjöllunar Alþingis og niðurstöðu viðræðna um undanþágur og aðlögun sem ríkisstjórn samþykkti að Ísland myndi í sameiginlegu EES-nefndinni í maí árið 2017 staðfesta upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn með venjulegum og hefðbundnum stjórnskipulegum fyrirvara um þær lagabreytingar sem við erum síðan að fjalla um hér í dag. Ef þetta níu ára ferli kallast að keyra mál í gegn þá verð ég að segja að það er einhver hægasta keyrsla sem um getur og maður hlýtur jafnframt að spyrja sig: Hvað felst eiginlega í því að fara sér hægt?

Sjálfsagt óraði engan fyrir því árið 2010 að þetta mál ætti eftir að verða meira rætt í þingsal en nokkurt annað mál í sögu Alþingis og það mætti líka segja mér að þáverandi utanríkisráðherra, Gunnari Braga Sveinssyni, hafi ekki heldur dottið það í hug á þeim árum sem hann og hans ráðuneyti unnu ötullega að undirbúningi málsins að það ætti eftir að verða hið mest rædda í þingsögunni, enda hefur verið beitt fremur óvæntum röksemdum gegn málinu. Eftir allt sem á undan var gengið var fremur óvænt að efasemdir skyldu koma fram um að málið stæðist stjórnarskrá. Alþingi var búið að leggja mat á það fyrir mörgum árum. Engu að síður kom þessi vafi fram en honum hefur nú verið eytt að fullu.

Í öðru lagi var það óvænt, vægast sagt mjög óvænt, að sú kenning skyldi skjóta upp kollinum að Íslandi væri mögulega skylt að samþykkja sæstreng. Við höfum heyrt marga af okkar færustu sérfræðingum færa rök fyrir því að sá skilningur standist enga skoðun og jafnvel lýsa honum sem lögfræðilegum loftfimleikum eða lögfræðilegri vísindaskáldsögu. Orkumálastjóri Evrópusambandsins hefur staðfest þann skilning okkar að lagning sæstrengs sé sjálfstæð ákvörðun Íslendinga. EFTA-löndin í EES hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu því til áréttingar og norska þingið lýsti því sömuleiðis yfir þegar orkupakkinn þar var samþykktur.

Í þriðja lagi var óvænt, og kannski það óvæntasta af öllu, að því skyldi vera haldið fram að þriðji orkupakkinn fæli í sér grundvallarbreytingu á skipan orkumála á Íslandi. Þetta hefur mátt lesa í hverri greininni á fætur annarri en höfundar þeirra greina virðast hreinlega hafa misst af fyrsta og öðrum orkupakkanum fyrir 15 árum þar sem stóra breytingin átti sér stað sem þeir telja, að svo virðist, nú verið að gera.

Þriðji orkupakkinn er nefnilega langt frá því að vera grundvallarbreyting á skipan orkumála hér á landi. Hann er þvert á móti í fullu samræmi við þau skref sem áður hafa verið tekin og hann er fremur lítið skref í samanburði við hin fyrri. Markaðs- og samkeppnisvæðing raforkugeirans með fyrsta og öðrum orkupakkanum var sannarlega stórt skref og fól í sér grundvallarbreytingar sem sumir andstæðingar þriðja orkupakkans virðast ekki hafa tekið eftir. Í dag erum við aftur á móti í meginatriðum aðeins að auka sjálfstæði og valdheimildir raforkueftirlits Orkustofnunar, halda áfram að efla neytendavernd og samþykkja að tilteknar leikreglur myndu gilda um millilandatengingar ef við skyldum einhvern tímann ákveða að koma slíkum tengingum á. Í því sambandi má hafa í huga að við myndum við auðvitað að öllum líkindum þurfa að undirgangast þær leikreglur hvort sem er ef við vildum tengjast jafnvel þó að enginn væri orkupakkinn.

Því til viðbótar má nefna að ef við yfir höfuð ætlum einhvern tímann að leggja sæstreng þá vantar okkur allt regluverk utan um slíka framkvæmd. Slíkt regluverk er ekki til, það þyrfti þá að vinna, koma annaðhvort með frumvarp til nýrra laga eða breytingar á mörgum lögum í dag.

Loks má ekki gleyma því að veigamikill hluti þriðja orkupakkans, jafnvel sá veigamesti, hefur þegar verið innleiddur en hann lýtur að kerfisáætlun Landsnets sem við innleiddum að eigin frumkvæði fyrir nokkrum árum.

Hér er því á ferðinni rökrétt skref á þeirri sömu braut frelsis og samkeppni í orkumálum sem Ísland hefur fylgt innan EES-samstarfsins alla tíð. Svo sannarlega er ekki um að ræða mál sem er andstætt íslenskum hagsmunum, hvað þá að það ógni forræði okkar á auðlindum, enda myndi ég aldrei leggja slíkt til eða samþykkja slíkt. Við ráðum því eftir sem áður að hvaða marki orkuauðlindir eru í opinberri eigu og við ráðum því eftir sem áður hvar er virkjað.

Umræða um orkumál munu halda áfram eftir að þessu máli er lokið. Ég fagna því. Umræðan um hana hefur sýnt að við höfum um nóg að tala í orkumálum. Við þurfum að auka vitund um þær breytingar í átt til markaðsbúskapar, frelsis og samkeppni sem urðu með raforkulögunum árið 2003 og byggðu á enn þá eldri ákvörðun þáverandi stjórnvalda, a.m.k. aftur til ársins 1999, ef ekki enn lengra, um að við skyldum feta þá braut.

Mér finnst ég skynja að það örli á vilja hjá einhverjum til að hverfa af þeirri braut og jafnvel koma á einhvers konar allsherjarsósíalisma í orkugeiranum þar sem allur rekstur er á hendi hins opinbera og einkaframtakinu útrýmt af sviðinu. Ég held að við myndum nú seint mæla með slíku fyrirkomulagi í sjávarútvegi, svo dæmi sé tekið, að það væri bara ein ríkisútgerð, kannski í mesta lagi með eina þokkalega stóra bæjarútgerð í Reykjavík til mótvægis.

Að sjálfsögðu er munur á þessum tveimur auðlindum og þeim vörum sem verða til úr þeim. En hitt er líka óumdeilanlegt að það er aldrei í þágu neytenda að standa í vegi fyrir samkeppni. Orkupakkarnir, bæði fyrsti, annar og þriðji, eru viðleitni til að stuðla að samkeppni og meira að segja fremur hófleg viðleitni því að þeir kveða alls ekki á um neina uppskiptingu fyrirtækja, eins og stundum hefur verið haldið fram, aðeins jafnræði aðila og einkum og sér í lagi eðlilegan og skynsamlegan aðskilnað á milli annars vegar framleiðanda og hins vegar þeirra sem eiga og reka innviðina sem varan flæðir um.

Ef hringvegurinn væri í eigu ferðaþjónustufyrirtækis er líklegt að önnur ferðaþjónustufyrirtæki yrðu látin borga óeðlilega hátt verð fyrir að nota hann. Ef hafnir landsins væru í eigu stærstu útgerðarinnar er líklegt að aðrar útgerðir eru látnar borga óeðlilega hátt fyrir að landa þar. Ef flugvellir landsins væru í eigu stærsta flugfélagsins er líklegt að önnur flugfélög yrðu látin borga óeðlilega há lendingargjöld. Þetta er í mínum huga í raun hinn sanni kjarni orkupakkans og hinna tveggja líka, jafnt aðgengi að innviðum til að samkeppni fái notið sín. Við eigum ekki að hafna því markmiði heldur styðja það. Og ef okkur finnst markmiðið hafi ekki náðst þá eigum við að leita leiða til að ná því af þeirri einföldu ástæðu að þetta er skynsamlegt og gott markmið.

Það er það sem mér finnst skipta miklu máli í allri umræðu um þessi mál, að innleiðingin er ekki að stíga inn á svið, taka af okkur völd eða forræði yfir auðlindum okkar heldur þegar við höfum tekið ákvarðanir um að nýta þær auðlindir með tilteknum hætti þá sé sameiginlegt regluverk hér og annars staðar sem eigi að tryggja jafnt aðgengi aðila að þeim innviðum.

Ég ítreka líka að þrátt fyrir að umræðan hafi verið heldur löng, einhverjum klukkustundum of löng, þá er margt gott sem hefur komið úr henni. Ég hlakka til komandi missera í umræðu um orkumál. Af nógu er að taka, t.d. ef lítum til þess hversu mikla orku þurfi til framtíðar. Í hvað fer hún? Hvernig getum við jafnað enn frekar dreifikostnað raforku? Við gerum það nú þegar í dag en það dugir ekki til. 980 millj. kr. á ári duga ekki til. Þrífösun rafmagns, tækifæri í uppbyggingu vindorku, tækifæri í smávirkjunum fyrir bændur og aðra landeigendur o.s.frv. Og það á auðvitað líka við um það regluverk og það umhverfi sem við erum nú í. Ég geri enga athugasemd við að menn ræði það, en ég verð að gera athugasemd við að talað sé um það eins og við séum að stíga þau skref núna. Við gerðum það fyrir 20 árum. Við erum ekki að taka þau skref núna. Við erum ekki að gera neinar grundvallarbreytingar á skipan orkumála á Íslandi með innleiðingu á þessum pakka. Það er ekki svo.