149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:49]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er réttur skilningur hjá hv. þingmanni að slíkt samþykki myndi birtast í þingsályktun. Ef þetta verður samþykkt þá stendur í þingsályktun um uppbyggingu flutningskerfis raforku að ekki verði farið í slíka framkvæmd nema með samþykki þingsins. Það myndi birtast í þeirri þingsályktun, að Alþingi samþykkti slíka framkvæmd í þeirri þingsályktun ef til þess kæmi.

En í umræðu um að við gætum horft upp á málþóf, ef til þess kemur, það á auðvitað við um allar þingsályktunartillögur og öll frumvörp sem hingað koma inn, þannig að ég væri mjög til í að eiga umræðu við hv. þingmann um þingskapalögin og hvort þau séu eins og þau eiga að vera út frá störfum þingsins. En það er allt önnur umræða. Að sjálfsögðu gæti orðið málþóf um þá framkvæmd sem hér er sagt að ekki sé hægt að fara í. Hún kemst ekki á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar fyrr en Alþingi hefur gefið samþykki fyrir því, hún kemst ekki inn á hana. Það er því ekki hægt að leggja sæstreng nema þingið hafi sagt: Við samþykkjum það. Að sjálfsögðu er hægt að fara í málþóf út af því eins og öllum öðrum málum.