149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:50]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Það bara alveg skýrt eins og hefur komið fram áður. Ef þessir fyrirvarar verða samþykktir gera þeir ekkert nema styrkja varnir fyrir þá sem vilja ekki sæstreng. Við skulum sjá hvort þeir sem berjast gegn málinu hér inni á þingi séu ekki sammála því, eins og þeir hafa barist gegn þingsályktunartillögu um orkupakkann sjálfan með málþófi. Fyrir það málþóf sem þeir berjast fyrir fá þeir þarna heimild aftur, örugga heimild, um að geta farið í málþóf um þingsályktunartillögu um að leggja skuli sæstreng út af því að það verður samkvæmt fyrirvörunum að samþykkja það. Mjög gott að fá þetta skýrt fram. Mjög gott að fá fram þá fyrirvara.

En ég ítreka: Ég mun áfram greiða atkvæði á móti orkupakkanum sjálfum sem þingsályktun. Því að ég vil láta stjórnarskrána njóta vafans. Það er ekki mikill vafi, en hann er til staðar og ég er svolítið fastur fyrir hvað það varðar. Ég skil aðra sem taka aðra afstöðu hvað það varðar. En þessir fyrirvarar eru góðir og styrkja stöðu þeirra sem vilja stöðva sæstreng eða teygja umræðuna og geta beitt málþófi gegn honum í þinginu þegar og ef til þess kemur.