149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:51]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það mat hv. þingmanns að við erum í rauninni að þrengja að þessari ákvörðun. Það er erfiðara, ef þessi mál verða samþykkt, að fara í slíka framkvæmd en væri í dag. Ég nefni þó, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, að við eigum ekkert regluverk utan um svona framkvæmd. Við höfum ekkert mat á hagsmunum, með eða á móti, á slíkri framkvæmd sem þyrfti að sjálfsögðu líka að fara í. Jafnvel þótt við værum ekki með þessi mál og einhver ráðherra vildi leggja sæstreng eða teldi sig þurfa að samþykkja ef einhverjir hefðu áhuga á slíku, þá ættum við eftir að smíða regluverkið og koma því hingað inn. Ef ekki væri lýðræðislegur meiri hluti fyrir slíkri framkvæmd væri auðvitað líka hægt að fara í málþóf og stöðva öll þau mál sem er óumflýjanlegt að farið verði í að vinna og samþykkja hér til að hægt sé að fara í framkvæmdina yfir höfuð. Við gætum ekki gert það núna af því að við eigum ekkert regluverk utan um það.