149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:52]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Þetta er svolítið athyglisvert. Ég er þakklát fyrir þennan fyrirvara, hvort sem hann heldur vatni eða ekki þá er hann alla vega tilhneiging í þá átt að koma til móts við þá sem eru mjög mikið efins eins og ég. Hins vegar var hv. þm. Haraldur Benediktsson með grein í sumar — og það leynist jú engum hvers lags urgur er úti í samfélaginu og hversu þjóðin er í rauninni algerlega klofin í afstöðu sinni gagnvart þessum þriðja orkupakka — og byggði hugmynd hans á því að það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um lagningu sæstrengs, það yrði ekki bara Alþingis að ákvarða heldur yrði það gert með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Staðreyndin er sú að Flokkur fólksins lagði einmitt fram breytingu við þessa þingsályktunartillögu þar sem við gerum nákvæmlega þetta, óskum eftir því að í stað þess að það sé Alþingi verði það þjóðin sem taki af skarið um lagningu sæstrengs.

Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig hugnast henni hugmyndir samflokksmanns síns? Fleirum þótti þessi hugmynd verulega áhugaverð. Telur ráðherra að það gæti hugsanlega verið liður í því að reyna að brúa þá stóru gjá sem er núna úti í samfélaginu hvað lýtur að innleiðingu þessa orkupakka?