149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:58]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það kann vel að vera að slík ákvörðun rati í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvort við eigum þá ákvæði í stjórnarskrá um það veit ég ekki. Hvort það væri mikil mótstaða hjá almenningi um það mál og allt annar vilji á þingi veit ég ekki. Í dag er búið að fjalla mikið um ágæti þess að senda málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst mikilvægt að við séum með eitthvert regluverk utan um það. Ég er alveg heiðarleg með það að ég er almennt ekki eins áfram um þjóðaratkvæðagreiðslur um alls konar mál og margir hér. Það er mín pólitíska skoðun og nálgun á þjóðaratkvæðagreiðslu. Það þarf að vera rammi. Við þurfum að ákveða fyrir fram hvers konar mál fara þangað, undir hvaða kringumstæðum. Ég lít svo á að þeir sem eru kjörnir fulltrúar almennings í landinu sitji uppi með það að taka alls konar ákvarðanir, (Forseti hringir.) bæði auðveldar og erfiðar, vinsælar og óvinsælar.