149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[12:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu. Ég verð að viðurkenna að ég heyrði slitrótt í henni hérna frammi en náði lokunum. Það sem mig langar að spyrja ráðherra út í varðar reglugerð 944/2019, 3. gr., þ.e. hluti af hinum svokallaða fjórða orkupakka, grænorkupakka, vetrarpakka eða hvað menn kalla það. Þar segir á ensku, með leyfi forseta:

„Member States shall ensure that their national law does not unduly hamper cross-border trade in electricity …“

Í þýðingu þess sem hér stendur: Aðildarríkin skulu sjá til þess að landslög þeirra hamli ekki að óþörfu viðskipti með raforku yfir landamæri.

Síðar í greininni segir, með leyfi forseta:

„… the deployment of electromobility or new interconnectors between Member States, and shall ensure that electricity prices reflect actual demand and supply.“

Eða: … dreifingu rafmangsframleiðslu nýrrar samtengingar milli aðildarríkja og skuli tryggja raforku er endurspeglar raunverulega eftirspurn og framboð.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Þar sem segir að landslög skuli ekki hamla að óþörfu viðskipti með raforku yfir landamæri, hver ætli skilgreiningin á „að óþörfu“ sé í því tilfelli?