149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:00]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Með endurútgefinni raforkutilskipun, þessari fjórðu raforkutilskipun, eru réttindi neytenda aukin og þeir hafa þá frekara frelsi til að velja raforkusala o.s.frv. Ég get ekki sagt hver skilgreiningin er á „að óþörfu“ í ákveðinni grein í máli sem hefur enga umfjöllun eða meðferð fengið á vettvangi okkar í þessu samstarfi. Það sem ég get sagt er að við höfum skipað sérstakan hóp sem sér um hagsmunagæslu okkar þarna. Við leggjum áherslu á þróun orkumála í samstarfi okkar. Það eru að öllum líkindum einhver ár í að við förum að vinna með það hvað af þessum hreinorkupakka skilar sér inn í okkar rétt, hvaða sjónarmiðum við höldum á lofti, hvar við óskum eftir undanþágum, hvar við óskum eftir aðlögun og yfir höfuð hvað verður á endanum hluti af þeirri innleiðingu gagnvart okkur. Eins og hv. þingmaður þekkir tekur slíkt ferli mörg ár.

Það er auðvitað alveg skýrt að markmið þessara orkupakka er sameiginlegt kerfi og ég held að enginn hafi sagt neitt annað. Það er markmiðið með þróuninni að þetta sé sameiginlegt kerfi. Það breytir því ekki að við erum ekki tengd og það getur enginn skyldað okkur til að vera tengd. Ef við tökum ákvörðun byggða á málefnalegum forsendum um að vera ekki tengd þá taka þær reglur sem við tökum síðan inn (Forseti hringir.) að sjálfsögðu mið af því, hér eftir sem hingað til.