149. löggjafarþing — 131. fundur,  29. ág. 2019.

raforkulög og Orkustofnun.

782. mál
[13:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég er algjörlega sammála ráðherranum um að það sem verið er að innleiða eða það sem er í pípunum sé eitt kerfi. Það er hárrétt hjá ráðherranum. Markmiðið er að búa til einn markað, eitt kerfi, þannig að öll löndin sem tengjast og hafa innleitt orkustefnu Evrópusambandsins sitji við sama borð og sama pakka. Þess vegna hef ég aðeins áhyggjur af því ef það er stefna stjórnvalda að líta þannig á að orkupakki þrjú sé sjálfstætt fyrirbæri og síðan komi orkupakki fjögur sem annað sjálfstætt fyrirbæri, því að tengslin þarna á milli eru held ég flestum augljós.

Eitt leiðir af öðru í þessum innleiðingum. Orkupakki fjögur er framhald af orkupakka þrjú. Það er meira að segja verið að breyta þeim gerðum sem við eigum að samþykkja núna. Þess vegna verð ég viðurkenna að ég hef áhyggjur af því, vegna þess að ég veit að hagsmunaaðilar eru að rýna orkupakka fjögur þessa dagana og ég veit alveg að ríkisapparatið er búið að vera að skoða þetta líka, að menn skuli ekki skoða hvað þetta þýðir nákvæmlega. Til dæmis þessi grein, að (Forseti hringir.) ríki skulu sjá til þess að landslög þeirra hamli því ekki o.s.frv.